Föstudagur 15. mars 2013

Vefþjóðviljinn 74. tbl. 17. árg.

Frambjóðandi Framsóknarflokksins varpar fram þeirri hugmynd að hækka skatta á almenning um 2% til að fjármagna leiðréttingu á lánum sama almennings.
Frambjóðandi Framsóknarflokksins varpar fram þeirri hugmynd að hækka skatta á almenning um 2% til að fjármagna leiðréttingu á lánum sama almennings.

Karl Garðarsson, sem skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík, var spurður að því í Vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn hvernig fjármagna ætti svonefnda skuldaleiðréttingu sem flokkur hans lofar á 90% lánunum sem hann atti fólki út í

Svo er líka hægt að fjármagna skuldaleiðréttingu á ýmsan annan hátt. Væruð þið sem sitjið við þetta borð til í að taka á ykkur segjum 2% skattahækkun í x-mörg ár, 10, 15 ár til þess að borga skuldaleiðréttingu? Það eru ótal aðferðir til, það eina sem þarf að gera er að finna réttu aðferðina.

Það er rétt að hrósa Karli fyrir að koma svo hreint fram. Einhver þarf að greiða fyrir „leiðréttinguna“ og hér leggur frambjóðandi Framsóknarflokksins til að almenningur geri það með því að skattarnir sem vinstri stjórnin er búin að hækka upp úr öllu valdi verði hækkaðir um 2% í viðbót í x-mörg ár.

Að hækka tekjuskattinn um 2% myndi þýða að hjón með meðallaun myndu tapa tekjum sem duga fyrir afborgun á láni upp á 2 milljónir króna. 

Framsóknarflokkurinn gæti þannig efnt kosningaloforð sitt með því að „leiðrétta“ lán þessa fólks um 2 milljónir og hækka tekjuskattinn á það um 2%.

Mesti glansinn fer þó óneitanlega af töframanninum þegar hann hefur upplýst hvernig hann tróð kanínunni ofan í hattinn áður en hann dregur hana upp úr honum aftur.