Ádögunum var minnst á stjórnarskrá ríkisins hér og þann sið margra að teygja hana og toga, mistúlka og misskilja, til þess að ná fram stjórnmálalegum ávinningi eða rökstyðja einhverja kröfu sína. Varla hafði blaðið sleppt orðinu þegar ungur maður, Ágúst Ágúst Ágústsson, formaður ungra krata skrifaði mikla grein í DV og hafði þar komið upp um fjölmörg stjórnarskrárbrot sem framin eru um hábjartan dag fyrir framan nefið á yfirvöldum. Segir Ágúst að ungir kratar hafi nú brugðist við þessu með því að taka saman „tólf ákvæði stjórnarskrárinnar í sérstöku fjölriti þar sem bæði er bent á stjórnarskrárákvæði sem hafa verið sveigð eða brotin með nýlegum dæmum“ – og er það ekki vonum fyrr. Jafnframt bendi umræddir ungir kratar báðir á nokkur heimildarákvæði sem ekki sé beitt í framkvæmd og hafi ungu kratarnir séð sér þann kost vænstan að senda þetta áríðandi fjölrit sitt til alþingismanna allra „í þeirri von að vekja þá til umhugsunar um æðstu réttarheimild lýðveldisins og hvernig hún er vanvirt.“.
„Ekki er samt gott að segja hvaðan Ágústi koma þessi sannindi því ráðherraábyrgð, sem landsdómur gæti tekið á, er einmitt refsiábyrgð eða bótaábyrgð en ekki svo kölluð pólitísk ábyrgð.“ |
Já það er ekki gott að heyra. Æðsta réttarheimildin vanvirt dag eftir dag, ákvæði hennar þverbrotin eða, sem krötunum virðist ekki þykja betra, bara alls ekki notuð. Þannig bendir Ágúst á að heimild til að skipa sérstaka þingmannanefnd hafi ekki verið nýtt „í meira en 47 ár“ og er vissulega ljótt að heyra því flestir hljóta að sjá að Alþingi sýnir stjórnarskránni algera „vanvirðu“ með því að láta meira en 47 ár líða milli þess sem það nýtir sér þessa heimild. Og þó. Stjórnarskráin veitir Alþingi einfaldlega heimild til ákveðins hlutar og það er svo á valdi Alþingis hvort eða hvenær það nýtir hana. Það er engin vanvirða þó heimild sé ekki nýtt. Ekki frekar en það er vanvirða þó undanfarinn áratug hafi ríkisstjórnir nær alfarið hætt að nýta sér heimild til útgáfu bráðabirgðalaga.
Ágúst er ekki síður óánægður með að landsdómur hafi ekki verið kallaður saman og ráðherrar þar ákærðir og dæmdir. „Ráðherraábyrgð snýst ekki um refsiábyrgð heldur pólitíska ábyrgð á þeim málaflokkum sem heyra undir viðkomandi ráðherra“ segir Ágúst og er ekki hress. Ekki er samt gott að segja hvaðan Ágústi koma þessi sannindi því ráðherraábyrgð, sem landsdómur gæti tekið á, er einmitt refsiábyrgð eða bótaábyrgð en ekki svo kölluð pólitísk ábyrgð. Ráðherra sem bryti skýr kosningaloforð yrði aldrei dæmdur af landsdómi fyrir það svo lengi sem ákvörðun hans væri lögleg. Pólitíska ábyrgð bera stjórnmálamenn gagnvart kjósendum sínum og samflokksmönnum og ráðherrar þurfa að auki að njóta trausts – eða minnsta kosti ekki vantrausts – Alþingis.
Það er margt fleira sem Ágúst er ekki ánægður með: „Í ofanálag við allt þetta eru mörg dæmi þess að alþingismenn fylgi ekki sannfæringu sinni eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir“. Hér á Ágúst við 48. grein stjórnarskrárinnar sem segir að Alþingismenn séu „eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum“. Með þessu stjórnarskrárákvæði er átt við það að Alþingismaður ræður sjálfur atkvæði sínu á þingi. Það er að segja, það hefði enga þýðingu að lögum þó flokksfélagar hans eða almennir kjósendur héldu fund og samþykktu þar að þingmaður skyldi greiða atkvæði með tilteknum hætti. Þó kjósendur sjái kannski eftir því að hafa kosið tiltekinn mann á þing þá geta þeir ekki afturkallað umboð hans. Þetta er það sem átt er við með greininni. Orðin „bundnir við sannfæringu sína“ segja ekkert um að þingmenn verði að vera gríðarlega „sannfærðir“ í hverju máli, heldur eingöngu það að þingmaðurinn ræður einn atkvæði sínu. Hvaða ástæður þingmaðurinn hefur svo fyrir því hvernig hann greiðir atkvæði á þinginu eru hans mál. Þingmaður getur til dæmis einsett sér að greiða jafnan atkvæði í samræmi við það sem hann teldi vilja meiri hluta landsmanna í hverju máli fyrir sig og þannig mætti áfram telja.
Ágúst hefur mörg orð um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og telur hana víða brotna. Hann nefnir misvægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og er ekki ánægður með það, frekar en von er. En þó misvægi atkvæði sé því óeðlilegra sem það er meira, þá er ekki þar með sagt að stjórnarskráin sé brotin með því. Nær væri að segja að stjórnarskráin gerði beinlínis ráð fyrir því að nokkur munur sé á vægi atkvæði kjósenda eftir kjördæmum. Þannig segir í 5. mgr. 31. stjórnarskrárinnar að hátti svo til eftir Alþingiskosningar að í einu kjördæmi séu helmingi færri kjósendur að baki þingmanni en í öðru, þá skuli landskjörstjórn breyta þingsætafjölda í kjördæmunum „í því skyni að draga úr þeim mun“. Af því má vera ljóst að stjórnarskráin gerir beinlínis ráð fyrir nokkru misvægi atkvæða.
Ekki eru tök á að fjalla hér um öll þau atriði sem Ágúst telur til marks um að stjórnarskráin sé sífellt brotin hér á landi. En að lokum má geta þess Ágúst fullyrðir að kjör öryrkja og gamalla – sem hann segir að hafi sjaldan verið eins bág og nú – séu stjórnarskrárbrot þar sem stjórnarskráin mæli fyrir um að öllum sé í lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku og svo framvegis. Stjórnarskráin segir einungis að í lögum skuli settar reglur um aðstoð við þá sem þurfi hennar með, enda er það gert í lögum. Það hlýtur svo að vera mat löggjafans hversu langt skuli ganga og hvernig þær reglur skuli vera. Og, þó það sé aukaatriði, þá hefur kaupmáttur aldraðra og öryrkja vaxið og vaxið undanfarin ár.
Ekki skal því haldið fram að stjórnarskráin sé aldrei brotin, enda hefur stundum verið bent á það hér í blaðinu að tiltekin lög gangi gegn henni. En oftast eru upphrópanir um stjórnarskrárbrot tómur misskilningur.