Vefþjóðviljinn 277. tbl. 16. árg.
Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sett upp vefinn skuldaklukkan.is þar sem sjá má gríðarlegar skuldir hins opinbera vaxa með ógnarhraða.
Á síðustu fjórum árum hafa skuldir hins opinbera farið úr 700 í 2.100 milljarða króna. Stór hlut þessara nýju skulda er í erlendri mynt. Íslenskir stjórnmálamenn hafa með þessu steypt þjóðinni í nýjar skuldir sem nema um 4 milljónum króna á hvern mann eða um 16 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Eins og skuldaklukka SUS sýnir eru skuldir hins opinbera á á mann nú komnar yfir 7,3 milljónir króna á mann eða nær 30 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Ætli nokkur geti skýrt að fullu hvernig þetta gerðist eiginlega?
Halli á rekstri ríkissjóðs undanfarin ár – þrátt fyrir gríðarlegar skattahækkanir – er ein stærsta skýringin. Því miður hafði ríkissjóður ekki borð fyrir báru þegar bankarnir féllu haustið 2008 og tekjur drógust snögglega saman. Stjórnmálamenn allra flokka höfðu árin þar á undan látið allt eftir öllum og því kunnu þeir engin önnur ráð gegn samdrættinum en að reka ríkissjóð með halla.