Vefþjóðviljinn 257. tbl. 19. árg.
Húsnæðismál eru mikið rædd, ekki síst af stjórnmálamönnum. Húsnæðismálin brenna á mörgum kjósendum og stjórnmálamenn vilja auðvitað bjóða upp á lausnir á vandamálum kjósenda. Hátt leiguverð er eitt þeirra.
Stjórnlyndir stjórnmálamenn telja oft að hægt sé að leysa vandamál með því að banna þau. Því miður verða slíkar lausnir oft til þess að gera vandann verri.
Nýlega ræddi Katrín Jakobsdóttir um húsnæðismál í útvarpsviðtali og mun hafa verið spennt fyrir hámarksverði á húsaleigu, svonefndu leiguþaki. Í viðtalinu sagði hún meðal annars: „Það er bara mín sýn að húsnæði sé ekki bara eitthvað sem eigi að lúta einhverjum markaðslögmálum.“
Þessi lausn Katrínar fellur líklega í frjóan jarðveg hjá þeim sem eru mjög spenntir yfir kjöri Jeremys Corbyns sem leiðtoga breska Verkamannaflokksins. En lausnin er ekki betri við það.
Á dögunum birti Viðskiptablaðið eftirfarandi frétt:
Sænsk stjórnvöld settu leiguþak á fasteignir í landinu fyrir fáeinum árum. Fasteignamarkaður í höfuðborginni er núna í molum.
Hálf milljón einstaklinga býður nú í „röð“ eftir að geta keypt íbúð í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, en gríðarlegur húsnæðisskortur er til staðar í borginni sem ekki sér fyrir endann á. Til þess að halda í við fólksfjölgun í borginni þarf að byggja þar 76.500 ný heimili á ári til ársins 2020. Ekki er hins vegar útlit fyrir að það muni nást eins og sakir standa.
Sænsk stjórnvöld settu leiguþak í landinu fyrir fáeinum árum sem hafa gert fasteignir að óaðlaðandi fjárfestingarkosti í augum einstaklinga og fjárfesta. Neyðin er mest í Stokkhólmi þar sem meðalbiðtími eftir leiguíbúð stendur nú í níu árum. Á síðasta ári náðu aðeins 12 þúsund einstaklingar að landa húsaleigusamningum í borginni. Þetta ástand hefur leitt til þess að fólk er jafnvel tilbúið að greiða allt að 200 þúsund sænskar krónur, jafnvirði þriggja milljóna íslenskra króna, undir borðið til þess að komast fremst í röðina.
Jafnvel hefur ástandið orðið banvænt í sumum tilfellum. Þannig greinir Bloomberg fréttastofan frá því að lögregluyfirvöld í Stokkhólmi hafi rakið fimm morðtilfelli til ólögmætra viðskipta tengdum fasteignum, sem hægt sé að tengja við skipulagða glæpastarfsemi. Óttast lögregluyfirvöld að vaxandi fjöldi innflytjenda og hækkandi íbúðaverð muni leiða til þess að glæpum fari fjölgandi í borginni á næstu árum.
Ef stjórnmálamenn vilja gera eitthvað til að bæta leigumarkaðinn þá mætti nefna tvennt. Þeir gætu lækkað fjármagnstekjuskattinn, en hann er meðal annars greiddur af leigutekjum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hækkaði fjármagnstekjuskattinn verulega eins og Katrín Jakobsdóttir man sjálfsagt. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lækkað hann aftur.
Svo gætu stjórnvöld breytt byggingarreglugerð þannig að ódýrara verði að byggja íbúðarhúsnæði. Reglugerðin hefur sífellt orðið meira íþyngjandi fyrir húsbyggjendur en stjórnvöld hafa ekki sýnt nokkurn áhuga á því að rýmka hana að nýju.
Með því að lækka fjármagnstekjuskatt og rýmka byggingarreglugerð myndu stjórnvöld draga úr skaðlegum áhrifum hins opinbera á leigumarkaðinn.