Vefþjóðviljinn 258. tbl. 19. árg.
Sem kunnugt er féll iðnaðarráðherra frá hugmyndum sínum um risavaxinn opinberan úthlutunarsjóð sem kynntur var undir nafninu „náttúrupassi.“
Var það mörgum léttir að embættis- og stjórnmálamenn fengju ekki nokkra milljarða á ári í viðbót til að ráðskast með. Fyrir er á vegum ríkisins Framkvæmasjóður ferðamannastaða sem er þó aðeins með lítið brot af þeim fjármunum sem ætlaðir voru náttúrupassasjóðnum.
Í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudaginn var sagði síðan svo frá:
Yfir helmingi þeirra verkefna sem hafa fengið fjármagn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ólokið, og vinna við mörg þeirra ekki hafin. Ráðherra ferðamála segir að meðal annars sé um að kenna seinagangi og skipulagsleysi. Til greina komi að innkalla peningana.
Samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins er um að ræða 178 milljónir króna sem úthlutað var í febrúar.
Hvað hefðu menn eiginlega gert við milljarðasjóðinn ef ekki tekst að koma tæpum tvöhundruð milljónum úr núverandi sjóði í notkun?