Þ að kemur fyrir að Vefþjóðviljinn fjalli um slagsíðuna á Ríkisútvarpinu. Fer því þó mjög fjarri að því umfangsmikla máli séu gerð næg skil með því. Margra ára djúp slagsíða á opinberum fjölmiðli hefur haft verulega mikil áhrif á lífssýn fjölda fólks, og æði oft má sjá og heyra ummerkin í þjóðfélagsumræðunni. Stundum er hlutdrægnin úr Efstaleiti þannig að hún getur vart verið nema vitandi vits, eins og þegar „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ fréttir alls ekki af skoðanakönnunum um heitustu deilumál stundarinnar, þegar þær eru fyrirætlunum vinstristjórnarinnar í óhag, eða þegar reynt er með ótrúlegum hætti að fela stórfelld átök um Evrópu- og Icesave-mál innan vinstrigrænna, á sömu stundu og reynt er að blása slíkt upp annars staðar.
En mjög oft er slagsíðan af öðrum toga. Hún er ekki afleiðing þess að fréttamenn eða þáttastjórnendur setjist niður á samsærisfund og velti fyrir sér hvernig þeir geti afvegaleitt hlustendur og áhorfendur. Nei, mjög oft átta þeir sig líklega alls ekki á slagsíðunni á sinni eigin umfjöllun. Þeir fara bara eftir sinni eigin heimsmynd, í sælli trú hins sjálfsgagnrýnislausa, og átta sig ekki á að út komi skökk mynd. Þáttastjórnendur velja viðmælendur sem þeim þykja marktækir, og átta sig ekki á því að yfirgnæfandi meirihluti þeirra deilir með þeim sömu meginsýn á hlutina. Slíkir gestir fá að mala og mala gagnrýnislaust, en þá sjaldan að inn slæðist gestur sem þáttastjórnandinn er ósammála skortir sjaldan frammígripin og gagnrýni hins glögga stjórnanda. Fréttir eru margar sama marki brenndar, þær eru litaðar af vinstrasjónarhorni fréttamannsins, án þess að hann ætli sér að gefa skakka mynd eða átti sig á því að hann gerir það.
Taka má tvö mjög sakleysisleg dæmi til að útskýra við hvað er að eiga í Efstaleiti. Í hvorugt skiptið hefur fréttastofan ætlað að gera neitt óeðlilegt og í hvorugt skiptið hefur hún áttað sig á því að neitt sé að.
Á dögunum sagði fréttastofan frétt af mótmælum í Chile vegna deilna þar um menntamál. Fréttin hljómaði svo, eftir að fréttaþulur hafði tekið fram í inngangi að í Chile ríkti nú hægristjórn:
Ríkisstjórn Sebastiáns Piñera telst sú óvinsælasta í Chile frá því Pinochet einræðisherra fór frá. Á fimmtudaginn í síðustu viku réðust hundruð lögreglumanna gegn mótmælendum sem hópuðust saman við forsetahöllina. Bareflum og táragasi var beitt, hundruð voru handtekin. Helsti foringi námsmanna, háskólaneminn Camila Vallejo, sagði að brotið hefði verið á rétti almennings til fundahalda. Mótmælaaðgerðir hafa staðið í allt sumar í Santiago, Valparaiso, Concepcíon og Temuco. Mótmæli héldu áfram á föstudag og fólk lét sér ekki lengur nægja að berja í búsáhöld eins og heimsfrægt var á valdatíma Pinochets heldur voru verslanir lagðar í rúst víða í Santiago. Fólkið mótmælir ekki aðeins óstandi í menntamálum heldur gjaldtöku banka og fyrirtækja og háum aðkomugjöldum á sjúkrahúsum. Fyrir fáeinum árum var lagt 100% álagsgjald á fæðingar utan skrifstofutíma. Markaðshyggja ríkisstjórnar Sebastiáns Piñera þykir ósveigjanleg og harkaleg. Allt miðast við hagnað en langtímamarkmið með rekstri skóla og heilbrigðiskerfis virðast engin. Það eru ekki aðeins háskólanemar sem mótmæla. Menntaskólanemar hafa víða tekið skóla sína herskildi. Þeir, eins og háskólanemar, mótmæla hagnaðarrekstri menntastofnana, krefjast lægri vaxta á námslán og afsláttarkorta til afnota í strætisvagnakerfinu. Eftir átökin í síðustu viku virðast mótmælin breiðast út til annarra félagshópa. Piñera hefur nú rekið menntamálaráðherrann og lofar endurbótum á menntakerfinu. |
Svona var frétt íslenska ríkisútvarpsins af deilunum í Chile. Auðvitað dettur Vefþjóðviljanum ekki í hug að Ríkisútvarpið hafi ætlað sér að hafa slagsíðu á fréttinni. Hún er einfaldlega sögð út frá heimsmynd fréttamannanna. Og hér er hún einföld. Við völd er hægristjórn og mótmælendur eru réttu mennirnir. Samkvæmt fréttinni réðist lögregla að mótmælendum með bareflum og svo var vitnað í hvað foringi mótmælenda hefði um málið að segja. Hafi lögreglan gefið einhverjar skýringar þá rötuðu þær ekki í fréttina, en hugsanlega hefur lögreglan haft einhverjar málsbætur því síðar kemur í ljós að blessaðir mótmælendurnir, sem vilja fá lægri vexti á námslán og afsláttarkort í strætisvagna, hafa lagt verslanir í rúst og skólar hafa verið teknir herskildi. Nú „markaðshyggja“ ríkisstjórnarinnar, hún þykir ósveigjanleg og harkaleg. Hverjum þykir það? Eru engir á annarri skoðun, er þetta bara vísindaleg niðurstaða? Allt miðast við hagnað en langtímamarkmið virðast engin. Hverjum virðist það? Þeim í Efstaleiti? Stjórnarandstöðunni í Chile?
Allt er þetta á einn veginn. Vafalaust ekki af því að á fréttamannafundi í Efstaleiti hafi verið ákveðið að jafna nú um þennan Piñera og gefa Íslendingum eindregna andstöðumynd af honum. Skýringin er eflaust sú að í Efstaleiti sér enginn neitt athugavert við svona fréttaflutning. Í landinu er hægristjórn, vitnað er í mótmælendur, sýn þeirra á hlutina er flutt heim til Íslands, en ekki eitt orð um hvaða rök ríkisstjórnin kunni að hafa fyrir aðgerðum sínum. Einhver hljóta þau þó að vera, jafnvel þótt þau þyki ekki sannfærandi í Efstaleiti. Í upphafi fréttarinnar var tónninn auðvitað sleginn með því að segja að ríkisstjórn Piñera væri sú óvinsælasta síðan Pinochet stýrði landinu. Að vísu var ekkert sérstakt hafi nefnt í fréttinni þessu til stuðnings, engar kannanir eða slíkt, en samt hefur eflaust mörgum fundist sem vart þyrfti meira að segja, þessi Piñera sé álíka óvinsæll og hinn illi einræðisherra. Ekki er víst að allir hlustendur viti hins vegar, að eftir fimmtán ára herstjórn, haustið 1988, var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í Chile um hvort framlengja skyldi valdatíma hershöfðingjans um átta ár til viðbótar. Í kosningunni var þeirri tillögu hafnað með 55% atkvæða gegn 45% og Pinochet lét af forsetaembætti í samræmi við úrslitin. Ef Pinochet hefur notið 45% stuðnings undir lok valdatíma síns þá er það hærra hlutfall en segist í dag vera ánægt með Barack Obama, að ekki sé minnst á ýmsa aðra leiðtoga norðar á hnettinum.
Annað dæmi, af allt öðrum toga, getur verið um umfjöllun Ríkisútvarpsins um kynferðisbrot. Ríkisútvarpið hefur gríðarmikinn áhuga á þeim málaflokki. Í sumar hefur ungri fréttakonu verið falið að segja nokkrar slíkar fréttir. Þannig tók hún nýlega viðtal við sérfræðinginn Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur verkefnisstýru, sem kvað rót kynferðisofbeldis vera í íslenskri menningu, sem væri „nauðgunarmenning“, sem væri „viðhorfin okkar, kerfið okkar, samfélagið okkar, sem einhvern veginn allt miðar að því að gera lítið úr nauðgunum, verja ofbeldismanninn og setja síðan ábyrgðina einhvers staðar allt annars staðar en þar sem hún á heima, sem er hjá ofbeldismanninum.“ Skömmu áður gerði sami fréttamaður frétt um niðurfellingar kærumála, og kom þar fram að kærur vegna auðgunarbrota leiði hlutfallslega mun oftar til ákæru en kærur vegna til dæmis kynferðisbrota. Engar útskýringar voru gefnar á þessu í fréttinni, en kannski hefur fréttastofan álitið að áhorfendum þætti augljóst, að auðgunarbrot, en algengt dæmi hans er þjófnaður úr verslunum sem oftast næst á mynd og þjófurinn er gripinn með þýfið, leiði oftar til ákæru en kynferðisbrot þar sem engin vitni eru, langur tími hefur oft liðið frá atburðum og orð standa gegn orði.
En hvað sem segja má um efni þessara frétta, viðtalið við sérfræðinginn sem taldi íslenska menningu vera nauðgunarmenningu, og eflaust réttu tölfræðina um ákæruhlutfall, þá er eitt fróðlegt við fréttirnar sjálfar. Það er að fréttastjóri og vaktstjóri virðast ekkert sjá athugavert við að fela þessum ágæta fréttamanni vinnslu þeirra. Það er nefnilega alkunna að þessi fréttamaður, sem eflaust er ágætur í sínu starfi, er sjálfur mikill baráttumaður gegn kynferðisbrotum og hefur skrifað innblásna bók um þau og telur mikla þörf á fleiri ákærum og sakfellingum í þeim málaflokki.
Það getur verið ágæt afstaða út af fyrir sig, en er rétt að fela einmitt slíkum fréttamanni að vinna fréttir ríkissjónvarpsins um þennan sama málaflokk? Hvað ef barátta fréttamannsins hefði verið annars eðlis, ef hún hefði skrifað bók til að vara við „nornaveiðum“ og hefði talað fyrir því sjónarmiði að menn væru of ákæruglaðir og sönnunarmat í kynferðisbrotamálum væri allt of vægt? Ætli henni hefði þá verið falið að segja fréttir af kynferðisbrotamálum?
Fréttastjóri og vaktstjóri hafa vafalaust ekki sent þennan fréttamann út af örkinni til þess að fá hlutdræga frétt af málunum – og því er ekki haldið fram hér að fréttirnar hafi verið hlutdrægar. Athygli er einfaldlega vakin á þessu, þar sem það þykir veita örlitla innsýn í hugsunarháttinn í Efstaleiti: Það er allt í lagi að menn fjalli sem fréttamenn eða dagskrárgerðarmenn, um mál, sem þeir sjálfir hafa mjög sterkar skoðanir á, ef það eru réttar skoðanir. Hvernig er til dæmis með stjórnanda eina reglulega pólitíska umræðuþáttar Ríkissjónvarpsins. Hann heldur einnig úti vefsíðu þar sem hann ræðst harkalega á suma menn og suma stjórnmálaflokka en hefur aðra menn upp til skýjanna. Í Efstaleiti sér enginn neitt að því að hann stýri umræðum um sömu mál í Ríkissjónvarpinu. Menn ættu að ímynda sér að skoðanir hans snerust við, hann byrjaði að lofsyngja þá sem hann nú ræðst á, og öfugt. Ætli hann þætti áfram jafn tilvalinn þáttastjórnandi?