Í bóksölu Andríkis er komin bókin Uppsprettan, sem er skáldsaga með hugmyndafræðilegu ívafi, eftir rússneska gyðinginn Ayn Rand, fædd Alisa Rosenbaum í Pétursborg 1905. Rand stundaði nám í heimspeki og sögu í háskólanum í Pétursborg en tókst að komast til Bandaríkjanna 1926, eftir að faðir hennar missti aleiguna í valdaráni bolsévika 1917.
Uppsprettan eða The Fountainhead, sem kom út 1943, fékk misjafna dóma. En hún spurðist vel út meðal lesenda og varð metsölubók í Bandaríkjunum. Kvikmynd var gerð eftir henni 1949 með Gary Cooper. Bókin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og selst í 6,5 milljónum eintaka. Hún kom fyrist út í íslenskri þýðingu Þorsteins Siglaugssonar 1990 og nefndist þá Uppruninn.
Sagan er um einstaklingshyggju og segir frá ungum arkitekt sem vill hvorki gera málamiðlanir í leik né starfi.
Rit og skoðanir Ayn Rand vekja hvarvetna sterk en misjöfn viðbrögð, ekki síst meðal frjálshyggjumanna. Margir hafa dálæti á verkum hennar og hugmyndum á meðan aðrir eiga bágt með að finna samhljóm með fastmótuðum skoðunum hennar og hinni klassísku frjálshyggju sem gerir kannski ráð fyrir meira umburðarlyndi og óreiðu. Sumir eru svo skiljanlega hræddir við þessa dularfullu konu sem er alltaf á svipinn eins og þú hafir svikist um að læra heima.
RSE og Almenna bókafélagið, sem gefur bókina út, efna kl. 17 í dag til kynningar á bókinni í Þjóðmenningarhúsinu. Þar mun dr. Tom Palmer frá Cato Institute flytja erindi um einstaklingshyggju 21. aldar.