H vernig væri að ganga í Bandaríkin? Langar einhvern til þess?
Ríkin, sem mynda ríkjasambandið sem menn kalla í daglegu tali Bandaríkin, hafa ekki alltaf verið fimmtíu. Síðast gengu Alaska og Hawaii í ríkjasambandið og urðu 49. og 50. sambandsríkið árið 1959. Hver segir að ekki verði tekið við fleiri ríkjum? Er ekki hreinlegast að sækja um aðild og komast að því? Það má alltaf hafna aðildarsamningi í kosningum. Það verður einfaldlega að fá þetta á hreint í eitt skipti fyrir öll. Eins og allir Samfylkingarmenn vita, og ekki bara þeir sem sitja á þingi fyrir aðra flokka eða kenna í félagsvísindadeild Háskóla Íslands, þá þýðir umsókn um aðild ekki að menn vilji fá aðild, heldur eingöngu að þeir vilji skoða hvað sé í boði.
Auðvitað myndu Íslendingar þurfa ýmis sérákvæði. Það þyrfti til dæmis að fá varanlegar undanþágur frá stjórnarskrá Bandaríkjanna og fjölmörgum reglum, svo sem ef herskyldu yrði komið á í landinu að nýju, og svo framvegis, en um það yrði að sjálfsögðu samið við núverandi stjórnvöld vestra og enginn myndi hafa áhyggjur af því að framtíðarstjórnvöld þar, eða dómstólar í Washington, myndu ekki viðurkenna slíkt samkomulag um alla tíð.
En meginmálið er þetta: Þó menn hafi að sjálfsögðu ekki gert upp hug sinn, þá er sjálfsagt að láta reyna á það hvaða samningi má ná. Svo á þjóðin bara síðasta orðið. Ætla menn virkilega að hafa af þjóðinni réttinn til að greiða atkvæði um aðildarsamning við Bandaríkin, þetta gamalgróna lýðræðisríki og bandamann Íslands? Hvers vegna má ekki sjá hvað er í boði? Þarna fengjum við til dæmis nýjan gjaldmiðil, þann öflugasta í heimi, hvorki meira né minna. Svo gætu vextir lækkað. Hvaða einangrunarhyggja er þetta?
Auðvitað vill Vefþjóðviljinn ekki að Ísland gangi í Bandaríkin, og ekki í neitt annað ríki eða ríkjasamband. En þeir sem fallast á málflutning eins og þennan, þeir geta líklega fallist á hvað sem er. Jafnvel aðildarviðræður við Evrópusambandið.