Þ au gjaldeyrishöft sem nú gilda eru ekki einsdæmi og því miður virðist sem stjórnvöld ætli landsmönnum að búa við þau í allmörg ár enn. Að minnsta kosti verða hvorki Steingrímur J. né sjálfur Franek Rozwadowski skildir þannig að nokkuð sérstakt liggi á að leyfa mönnum að stunda gjaldeyrisviðskipti á nýjan leik.
Í viðskiptablaði Morgunblaðsins var í gær rætt við fjóra reynda menn úr íslensku viðskiptalífi sem allir ráku fyrirtæki á tímum gjaldeyrishafta á síðustu öld. Haraldur Sturlaugsson, sem stýrði sjávarútvegsfyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni hf. á Akranesi, lýsti því til dæmis í viðtali þegar hann, 26 ára gamall framkvæmdastjóri af Skaganum, sat á skrifstofu forsætisráðherra til að fá leyfi til að kaupa skuttogara. Leyfið fékkst. Haraldur segir að þegar útgerðarmenn hafi verið að flytja ísfisktogarana heim í upphafi áttunda áratugarins hafi einhverjir þeirra reynt að búa sér til svolítinn gjaldeyri til að geta boðið upp á brauðveitingar við nafngjöf skipsins ytra. Vegna þess hafi verið „sett á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd vegna meints gjaldeyrismisferlis útgerðarmanna við innflutning á skipum“, enda er ekkert nýtt að spekingar í landi telji útgerðarmenn í eilífu svindli og svínaríi. Haraldur rifjar upp:
Ég man eftir því þegar ungur lögfræðingur, Atli Gíslason (sem nú er þingmaður Vinstri-grænna), birtist á tröppunum hjá mér. Atli var þá meðal starfsmanna þessarar nefndar sem var ætlað að rannsaka útgerðarmenn. Ég man að við hjónin höfðum á þessum tíma keypt tevagn fyrir 8.000 krónur. Atli gerði húsleit hjá okkur og spurði meðal annars um tevagninn. Við höfðum keypt hann í Noregi og gátum framvísað kvittun þar lútandi. Þessi tevagn er nú orðinn ansi lúinn í dag, en við köllum hann alltaf Atla. |
Í dag sitja menn í Seðlabankanum og skoða öll greiðslukortaviðskipti Íslendinga. Ekki aðeins stærstu færslur heldur allar. Sá sem borgar áskriftina sína að rússneska tímaritinu Chayka með greiðslukortinu sínu er kominn þá á skrá hjá Má.