Hljómurinn var mjög góður. |
– Placido Domingo að loknum tónleikum í Egilshöll 13. mars 2005. |
Á rið 1997 höfðu menn í hyggju að byggja tónlistarhúsið í Laugardalnum fyrir 1.550 milljónir króna. Það þótti eðlilega of dýrt og ekkert varð úr framkvæmdum. Síðan bættust við tónleikasalir á borð við Salinn og Ými og einnig stór samkomuhús eins og Egilshöll sem Domingo gerði sér að góðu.
Á vordögum ársins 2006, um svipað leyti og kanarífuglarnir í íslensku kolanámunni veiktust alvarlega en tórðu þó, komu fulltrúar ríkis og Reykjavíkurborgar saman og undirrituðu samning við furðufélag nokkurt um að leggja því til 700 milljónir króna á ári í 35 ár. Slíkan styrk mátti núvirða á 12 þúsund milljónir. Félagið ætlaði að byggja tónlistar- og ráðstefnuhús við höfnina. Hinar 1.550 milljónir króna sem hefðu dugað til að losa skattgreiðendur undan þessu brjálæði árið 1997 jafngiltu nú aðeins framlagi almennings í tvö ár af 35.
Í gær voru svo haldnir fyrstu tónleikarnir í hinu nýja húsi sem talið er að hafi kostað – ekki 1.550 milljónir, ekki 12 þúsund milljónir – nær 30 þúsund milljónir að byggja. Ríki og Reykjavíkurborg hefðu getað sagt sig frá málinu eftir bankahrunið og losað skattgreiðendur við mikil útgjöld næstu 35 árin. Það var ekki gert.
Tónlistarhúsið er því ekki aðeins stærsta minnismerkið um hvað var að á árunum 2006 til 2008 á Íslandi heldur einnig á árunum 2008 til 2011.