V ið umræður um ákæru núverandi meirihluta Alþingis á hendur fyrrverandi ráðherrum kvaðst Birgitta Jónsdóttir vonast til þess að þingmenn hefðu nægt „hugrekki“ til að… ákæra ráðherrana fyrrverandi.
Já það þarf alveg gríðarlegt hugrekki til að hlýða öskrum þeirra sem heimta ákærur á sem flesta. Það þarf gríðarlegt hugrekki til að láta undan múgnum. Birgitta Jónsdóttir telur hins vegar að þeir, sem vilja skoða ákæruefnin og vilja fá að vita hvar háttsemin, sem fólki skal gefin að sök, sé lýst refsiverð, og sem vilja að ljóst sé að fylgt sé eðlilegri málsmeðferð, að þeir séu huglausir – en hinir sem vilja bara æða áfram, helst án þess að nokkur maður sjái gögnin sem sögð eru liggja málinu til grundvallar, þeir séu hugaðir. Þeir sem vilja umræðulaust fylgja álitsgjöfunum, bloggurunum og athugasemdaliðinu, þeir eru hugrakkir. Hinir, sem taka á sig svívirðingar og ofstopa til að standa vörð um grundvallaratriði réttarríkisins, þeir eru gungur.
Það er sennilega rétt hjá Birgittu að þeir sem ákafir eru í að koma fram ákærum á ráðherrana fjóra, þeir eru að vissu leyti hugaðir. En hugurinn er ekki endilega svo góður. Ef að þetta er eini hugurinn sem er í boði, þá er hugleysi nú skárra.
Hversu margir þeirra,sem vilja endilega að ráðherrarnir verði ákærðir, hafa í raun kynnt sér ákæruefnin? Vefþjóðviljinn fór yfir málið í síðustu viku og er sömu skoðunar enn, þrátt fyrir brýningar hinnar hugrökku Birgittu, að ákærurnar séu fráleitar gagnvart ráðherrunum öllum. Það hefur hvergi verið sýnt fram á að ráðherrarnir hafi gerst sekir um neitt það sem lýst er refsivert í lögum. Um slíka hluti snúast ákærur, en ekki um frasa íslenskrar dægurumræðu þessi árin. Og þess vegna situr Vefþjóðviljinn nú uppi með það undarlega hlutverk að þurfa að verja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir ákærum sem ný forysta Samfylkingarinnar var upphaflega potturinn og pannan á bak við.
Í kosningunum í Svíþjóð í gær komst á þing flokkur sem talar máli þeirra sem áhyggjur hafa af sístækkandi straumi innflytjenda til Svíþjóðar, en innflytjendur eru nú um 14% Svía, ef ekki er talinn með sá Svíi sem skotið var út í geiminn árið 2006. Ekki vefst fyrir íslenskum fjölmiðlamönnum hvers konar flokkur þetta er: „Komast nýfrjálshyggjumenn á þing í Svíþjóð?“ spurði Ríkisútvarpið er það kynnti föstudagsþátt skemmtiþáttarins Spegilsins, þar sem fjallað var um flokkinn.