Þ að er dæmigert fyrir íslenska fjölmiðlamenn að þeir munu gera sér dagamun yfir hrotum Össurar og samferðamanna hans á þingi Sameinuðu þjóðanna sem þýskir fjölmiðlar festu á filmu. Og vissulega er myndin dásamleg. Enginn mun þó spyrja af hvaða ástæðu er fjölmenni frá Íslandi á þessu þingi. Hver er tilgangurinn með því að senda fólk yfir hafið með þeim kostnaði – og útblæstri svo spurt sé fyrir hönd vinstri grænna – sem því fylgir til að sitja undir ræðum Mugabes?
Það er sennilega rétt að taka það fram að Vefþjóðviljinn er ekki að spyrja um hina augljósu ástæðu fyrir því að Össur og Jóhanna forðuðu sér af landinu.
Þessi ráðstefna Sameinuðu þjóðanna er ekki heldur eina gagnslausa ráðstefnan sem íslenskir stjórnmála- og embættismenn sækja. Hvað ætli ferðirnar til Brussel vegna aðlögunarinnar að ESB séu orðnar margar?
Og svo má vissulega velta einu fyrir sér til viðbótar. Hefði Icesave-samninganefndin ekki betur verið sofandi á erlendum vettvangi en glaðvakandi með nýjustu skilaboðin frá Steingrími um að íslenskir skattgreiðendur ætli sér ekkert annað en að greiða sér óviðkomandi skuldir?