Miðvikudagur 19. janúar 2011

19. tbl. 15. árg.
Jón Jónsson var í gær handtekinn fyrir þjófnað. Hann var tekinn fyrir að stela flösku af kókakóla og einu prinspóló úr Rögnvaldarbúð. Jón hefur nú verið ákærður fyrir þjófnaðinn. Stuðningsmenn hans segja ákæruvaldið krefjast sex ára fangelsis yfir Jóni og hafa boðað til styrktartónleika honum til stuðnings annað kvöld. Tónleikarnir verða kynntir vandlega í Ríkissjónvarpinu fyrirfram. Í útsendingunni mun enginn tala máli ákæruvaldsins.
– Einhvern daginn heyrist svona frétt lesin í Ríkisútvarpinu eins og ekkert sé sjálfsagðara.

F jölmiðlar og „aðgerðasinnar“ hafa mikinn áhuga á dómsmáli sem nú er rekið í framhaldi af því er hópur manna ruddist inn í alþingishúsið svo störf Alþingis stöðvuðust. Finnst mörgum sem mikil ósvinna sé að ákæra hópinn, þar sem nauðsynlegt hafi verið að skipta um ríkisstjórn. Slík málsvörn er raunar staðhæfing um enn alvarlegra brot en fólkið er ákært fyrir, en það er önnur saga.

Önnur staðhæfing, sem oft heyrist í umræðu um ákæru á hendur þessum hópi, er að krafist sé ævilangs fangelsis yfir hópnum. Fréttamenn gera aldrei athugasemdir við það. Síðast í dag taldi þingmaðurinn Þór Saari „skelfilegt“ að fylgjast með réttarhöldunum, þar sem krafist væri allt að ævilangs fangelsis yfir þeim sem réðust inn í alþingishúsið. Þór er ekki fyrsti þingmaðurinn sem reynir að hafa áhrif á ákæruvaldið og dómstóla í þessu máli. Og hann hefur haft mörg orð um mikilvægi þrískiptingar ríkisvaldsins og önnur misfalleg um yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu.

Refsiramminn við þjófnaði er sex ár. Með sömu rökum mætti segja að ef Jón Jónsson, sem nefndur var í upphafi, yrði ákærður fyrir þjófnað sinn, þá væri krafist sex ára fangelsis. Slíkt væri þó fráleitt. Hámark refsiramma er undantekningarlítið fjarri því sem raunverulega er dæmt og enginn þarf að láta sér detta í hug að liðið sem réðist inn í þinghúsið verði dæmt í ævilangt fangelsi fyrir. En fréttamenn gera aldrei neina athugasemd við þennan málflutning. Og raunar er ævilanga fangelsið eingöngu hámark „ef að sakir eru mjög miklar“, sem gerir þennan málflutning enn fráleitari. Hvernig getur staðið á því að fréttamenn segja fólki þetta aldrei, þrátt fyrir gríðarlegan áhuga sinn á málinu?

En fjölmiðlamenn taka þátt í baráttunni með ýmsum hætti. Á dögunum kynnti Kastljós Ríkissjónvarpsins sérstaklega að haldnir yrðu tónleikar til styrktar hinu ákærða fólki og söngkona kom með dætrum sínum og söng lag hinum ákærðu til stuðnings. Fékk hún svo að tala og tala fyrir málstað þeirra, frammi fyrir brosandi umsjónarmanni sem í lokin þakkaði söngkonunni og hennar „frábæru dætrum“ kærlega fyrir.