E ins og menn vita tókst bæjaryfirvöldum á Álftanesi að koma bænum á kaldan klaka. Eða það héldu menn. Í vikunni benti forseti bæjarstjórnar Álftaness hins vegar á sökudólginn í málinu, sökudólg sem fyrst var óvæntur, en þegar betur er að gáð, þá var ábending forseta bæjarstjórnar eðlileg á Íslandi ársins 2009:
Forseti bæjarstjórnar Álftaness sagði í vikunni að sökin á því hvernig komið væri fyrir bæjarfélaginu lagi ekki síst hjá „eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga“. Hún „hefði átt að grípa fyrr í taumana“.
Já, var það ekki? Fannst ekki „eftirlitsaðili“ til að hafa „brugðist“? Nú þarf bara að ræða eftirlitsaðilann í fréttum næstu vikur, skipa svo rannsóknarnefnd, skipaða vandlega völdum sérfræðingum sem hafa fyrst og fremst kunnáttu í því að leita að mistökum eftirlitsnefnda, blogglúðrasveitir geta svo hamast í nefndinni um að nú beri henni að hengja einhverja safaríka sök á eftirlitsnefndina en verði ella sökuð um „hvítþvott“ næstu árin.
Fljótlega munu flestir hafa gleymt að einhvers staðar hafi sveitarstjórnarmenn tekið endalaus lán og kastað þeim út með sundlaugarvatninu. Ástæða stöðunnar á Álftanesi er augljóslega að eftirlitið brást.
U m síðustu helgi hafði Ríkisútvarpið eftir Steingrími J. Sigfússyni að það yrði að ljúka Icesave-málinu fyrir jól, annars færi allt í voða.
Í gær sömdu stjórn og stjórnarandstaða um þingstörfin á næstunni og var Icesave-ánauðin ekki meðal þeirra sem afgreiða skal fyrir jól. Ekki var minnst á nokkurn voða þess vegna. Hversu margir fréttamenn ætli rifji upp nokkurra daga ummæli Steingríms og bæti þeim á hótanalistann? Enginn fjölmiðill hefur enn gert heilstæða úttekt á hótunum og loforðum ráðherranna um hvað gerist eða gerist ekki, ef þingið lætur eða lætur ekki að vilja þeirra. Hverju ætli ráðherrar þurfi að hóta, til þess að fjölmiðlar vakni?
F jölmiðlamenn láta núna eins og það sé frágengin staðreynd að Icesave-skuldir Landsbankans hvíli á íslenska ríkinu. „Icesave-skuldbindingar ríkisins“ er hugtak sem þeir eru farnir að nota, þó engar Icesave-skuldbindingar hvíli á íslenska ríkinu. Þannig talaði Þóra Arnórsdóttir í Kastljósi gærkvöldsins um það hvort Björgólfur Thor Björgólfsson mætti koma að uppbyggingu einhvers fyrirtækis, vegna hlutdeildar hans í „Icesave-skuldbindingum ríkisins“.
Íslenska ríkið ber enga ábyrgð á Icesave-skuldunum. Icesave-skuld ríkisins er nákvæmlega núll, mælt í krónum, sterlingspundum, evrum og matadorpeningum. Ríkisstjórnir Bretlands, Hollands og Íslands reyna hins vegar að beygja íslenska þingmenn til að taka þessar skuldir á íslenska ríkið. Ein þessara ríkisstjórna beitir hótunum og hræðsluáróðri, hinar tvær einkum þögn og lítilsvirðingu.
Ef Icesave-skuldirnar hvíldu á íslenska ríkinu þá þyrfti ekkert frumvarp, enga næturfundi og engin lög – vegna þess að skuldirnar hvíldu á ríkinu og þær mætti innheimta. Frumvarpið, næturfundirnir og lögin eru til þess að koma þessum skuldum á Ísland. Því vonda verki er ekki lokið, þó fréttamenn tali eins og svo sé. Því lýkur ekki fyrr en alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og forseti skrifað nafn sitt við það.