Hverjir sigruðu í kosningunum í gær? Þessi spurning kemur ævinlega upp eftir kosningar og undantekningarlítið unnu allir frambjóðendur sem spurðir eru. Í það minnsta varnarsigra. En í gær má segja að einn sigurvegari standi upp úr, og það er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri. Henni tókst það sem öðrum leiðtogum jafnaðarmanna tókst síður, en það er að fá þau atkvæði sem þurfti. Og henni tókst þetta þrátt fyrir að vera með menn á lista sem enginn vildi sjá í borgarstjórn og stefnu sem enginn vissi hver var (ef hún þá var). Aðferðin var einföld, Ingibjörg var á öllum auglýsingum fyrir listann en aðrir voru faldir. Ef mál Helga Hjörvar og Hrannars Arnarssonar hefðu ekki komið í umræðuna jafn sterkt og raun ber vitni gætu kjósendur líklega ekki nafngreint nokkurn annan en Ingibjörgu af listanum.
En hið undarlega við þennan sigur Ingibjargar Sólrúnar er að hann er ekki sigur sameiningar jafnaðarmanna. Sameiningin mikla, sem bjarga á félagshyggjumönnum frá þroti, þurfti að þola ósigur á meðan ríkisstjórnarflokkarnir og þá sérstaklega sjálfstæðismenn standa vel að vígi víðast hvar. Þar með má líka segja að kosningarnar í gær hafi verið sigur ríkisstjórnarinnar. Henni er að hluta til þakkað gott efnahagsástand og því fá hennar menn yfirleitt góða kosningu.
En hver verður svo hin raunverulega niðurstaða kosninganna fyrir kjósendur? Ættu kjósendur að fagna úrslitunum? Nei, kjósendur geta í raun sjaldan fagnað úrslitum kosninga, sérstaklega ekki til sveitarstjórna, vegna þess að sá ósiður hefur tíðkast í kosningabaráttu að lofa miklum útgjöldum (úr vasa kjósenda vitaskuld) í hitt og þetta. Þessar kosningar eru engin undantekning og nú bíður kjósenda í Reykjavík t.d. mikill og dýr kosningapakki R-lista. Eina vonin er að R-listinn svíki loforð sín. Reynslan frá síðasta kjörtímabili segir okkur að svo muni og verða.