Ó lympíuleikarnir nálgast og víðar en á Íslandi hafa þjóðarleiðtogar og aðrir ráðamenn verið hvattir til að streyma ekki í viðhafnarsætin í Kína og gefa Pekingstjórninni færi á að sýna landsmönnum sínum og heimsbyggðinni hundruð erlendra ráðamanna, settlega í hátíðahöldum kommúnista. Þessum áskorunum hefur víðast verið mætt með sama svarinu, enda langar marga á ólympíuleika á annarra kostnað: „Það á aldrei að blanda saman íþróttum og stjórnmálum“.
Þessi kenning þykir óskaplega fín, og hefur lengi verið viðkvæði forystumanna íþróttahreyfingar þegar endilega hefur þurft að senda menn til að keppa í einræðisríkjum. Það má aldrei blanda saman íþróttum og stjórnmálum.
Einhverjir hafa vafalaust horft á knattspyrnuleik Þjóðverja og Tyrkja í fyrradag. Hvernig byrjaði skemmtunin? Með þróttmiklu miðjusparki herra Schweinsteigers, kannski?
Neinei, á vellinum var búið að setja upp risaskilti „gegn rasisma“ og fyrirliði hvors liðs fékk hljóðnema og var látinn lesa upp yfirlýsingu gegn þeim skoðunum sem kenndar eru við rasisma. Í stúkunni sat íþróttaforystan hátíðleg, nýbúin að fara með töfraþulurnar um að aldrei megi blanda saman íþróttum og stjórnmálum. Enda eru það stjórnmál þegar einhver vill mótmæla harðstjórninni í Peking. En skilti og barátturæður gegn tilteknum skoðunum – því ógeðfelldar minnihlutaskoðanir eru líka skoðanir – það eru ekki „stjórnmál“ heldur fínt sjónvarpsefni sem sýnir vel hvað íþróttaforystan er víðsýn og nútímaleg. Enda var fólk um alla Evrópu ekki sest fyrir framan sjónvarpstækið sitt til þess að gleyma sér um stund yfir spennandi fótboltaleik, heldur fyrst og fremst til þess að taka við skilaboðum um siðferðilega yfirburði elítunnar í Evrópu.
Og hvað ætli margir stjórnmálamenn í Evrópu þori að benda á tvískinnunginn?
F jölmiðlar sögðu á dögunum frá þeim stórtíðindum úr baráttunni fyrir bandarísku forsetakosningarnar, að Barack Obama hefði fengið stuðning úr óvæntri átt: Sjálfur Al Gore var að lýsa yfir stuðningi við framboð Obamas og því ekki furða að íslenskir fréttamenn hafi sagt frá þessu allákafir. Enda mikil tíðindi á ferð: maður sem sat í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir demókrata, var svo um átta ára skeið síðasti varaforseti sem demókratar hafa átt en varð þá forsetaefni demókrata – hann var bara að lýsa því óvænt yfir að hann ætli að þessu sinni að kjósa frambjóðanda demókrata.
Nú falla greinilega öll vötn til Dýrafjarðar. Næst gæti jafnvel komið stuðningsyfirlýsing frá The New York Times eða konu Obamas, og þá getur McCain lagt niður vopnin.