Miðvikudagur 18. júlí 2007

199. tbl. 11. árg.

V efþjóðviljinn barmaði sér undan því fyrir skömmu að Bóksala Andríkis ætti ekki annan kost en að nýta póstþjónustu ríkisins þegar hún sendi viðskiptavinum sínum bækur. Þetta væri sérlega neyðarlegt þegar um hið nýútgefna rit Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner væri að ræða því Spooner hefði ekki aðeins barist gegn einokun bandaríska ríkisins á póstþjónustu heldur reynt að brjóta hana á bak aftur með því að fara í keppni við hana. Sú tilraun hans virtist ætla að heppnast þar til ríkið hótaði málsókn fyrir hvert bréfsnifsi sem fyrirtæki hans, American Mail Letter Company, bæri milli manna.

En eru viðskipti Bóksölu Andríkis við ríkispóstinn um leið yfirlýsing um að Andríki styðji rekstur ríkisins á slíkri þjónustu? Nei, ekki frekar en akstur eftir þjóðvegi 1 er yfirlýsing um að menn styðji það að ríkið stundi vegagerð. Hlustun á Ríkisútvarpið er heldur ekki yfirlýsing um að menn styðji rekstur Ríkisútvarps, jafnvel þótt menn hlusti stundum á Spegilinn. Lambakjötsát er varla sérstök stuðningsyfirlýsing við milljarða króna framlag úr ríkissjóði á hverju ári til senda nokkur hundruð þúsund krullhærða grasbíta út um móa og mela.

En hvað með þá sem starfa hjá ríkinu, til dæmis hjá tollinum eða víneftirlitinu, eru þeir ekki þar með búnir að afsala sér öllum rétti til að vera á móti tollum og óþörfu eftirliti? Varð Adam Smith til að mynda ómarktækur þegar hann varð tollstjóri í Skotlandi? Nei, auðvitað er ekki hægt að neyða menn til að búa við ákveðið skipulag sem þeir eru andvígir að verulegu leyti og gera um leið þá kröfu til þeirra að þeir neiti sér um að taka þátt í stórum hluta þjóðfélagsins.

Og þessi hluti hins opinbera af þjóðfélaginu fer sívaxandi. Eins og kom fram í skýrslunni Sneið til stjórnvalda sem Andríki gaf út á dögunum hirti hið opinbera, ríki og sveitarfélög, 47% landsframleiðslunnar í fyrra. Nær önnur hver króna endaði í sjóðum hins opinbera. Umfang ríkis og sveitarfélaga er því alveg óheyrilegt og ekkert sjálfgefið að menn finni starf við hæfi hjá einkafyrirtækjum á meðan ástandið er með þessum hætti. Hið opinbera lifir ekki á frjálsum framlögum og það væri ekki sanngjörn krafa að menn neituðu sér um þjónustu eða störf hjá ríki eða sveitarfélögum sem taka með valdi aðra hverja krónu sem landsmenn vinna fyrir.

Bréf með frímerki og póststimpli frá póstþjónustu Spooners.