Föstudagur 11. maí 2007

131. tbl. 11. árg.

F á mál hafa vakið jafn hörð viðbrögð verkalýðshreyfingar og breytingar á eftirlaunakjörum embættismanna og kjörinna fulltrúa fyrir þremur árum. Málið gengur jafnan undir nafninu „eftirlaunafrumvarpið“ eftir lagafrumvarpi sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka lögðu fram um málið. Verkalýðsrekendum og fleirum þykja þessi eftirlaunakjör alveg fáránlega góð og um þau hafa verið höfð mörg stór orð.

Þótt Samfylkingin hafi tekið þátt í að leggja eftirlaunafrumvarpið fram snerist hún gegn því þegar henni sýndist skoðanakannanir benda til óánægju með það í þjóðfélaginu.

En nú hefur Samfylkingin lagt til að þessi ofboðslegu eftirlaunakjör verði skattfrjáls upp að 320 þúsundum á mánuði og svo aðeins 10% eftir það.

Fyrrverandi krataráðherra með 700 þúsund á mánuði í eftirlaun þarf þá ekki lengur að greiða 220 þúsund í tekjuskatt af eftirlaununum heldur aðeins 38 þúsund.

FF réttastofa Stöðvar 2 stendur sig ekki síður en DV síðustu dagana fyrir kosningar. Í gær þuldi fréttamaður stöðvarinnar vel valda kafla upp úr grein fyrrverandi ríkisskattsstjóra, Indriða H. Þorlákssonar, um skattbyrði. Í greininni kemur ekkert nýtt fram. Það vita allir að miklar launahækkanir undanfarinna ára hafa gert það að verkum að menn greiða nú hærra hlutfall tekna sinna í skatt en áður. Hátekjumenn greiða hærra hlutfall en menn með lágar tekjur. Þannig er skattkerfið.

Maður með 100 þúsund í tekjur greiðir 2% launa sinna í skatt.
Maður með 200 þúsund í tekjur greiðir 18% launa sinna í skatt.
Maður með 700 þúsund í tekjur greiðir 30% launa sinna í skatt.

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að þegar tekjur manna snarhækka almennt í þjóðfélaginu að menn greiði meira í skatt. Ríkisstjórnin hefur hins vegar verið að lækka tekjuskattshlutfallið og persónuaflsláttur hefur fylgt verðlagsþróun. Ef hún hefði ekki gert það hefði „skattbyrðin“ aukist enn meira.

Stjórnarandstaðan var andvíg þessum skattalækkunum og var einnig á sama tíma að hækka útsvarið í Reykjavík.