Miðvikudagur 7. júní 2006

158. tbl. 10. árg.

Í slenskir fjölmiðlamenn eru eins og þeir eru. Þeir geta endurtekið ýmsa einskisverða hluti í kringum væntanlega afsögn formanns Framsóknarflokksins úr stóli forsætisráðherra, en enginn þeirra virðist geta spurt hvers vegna í ósköpunum maðurinn ætli að láta mánuði líða svo að flokkurinn eigi engan raunverulegan og óskoraðan oddvita innan ríkisstjórnar. Af hverju hann hyggist segja skyndilega af sér forsætisráðherraembættinu einu en vera áfram formaður og alþingismaður næstu mánuði.

Sá sem les fjölmiðlabækur Ólafs Teits Guðnasonar, fylgist upp frá því með fjölmiðlum með öðrum hætti en áður.

En það er ekki aðeins að fjölmiðlamenn geti verið ófáanlegir til að benda á það sem máli skiptir, þeir geta líka verið ákafir að breiða út vitleysu og rangan skilning. Eða hvað á að halda um tvö nýleg dæmi sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur nefnt á heimasíðu sinni. Í því fyrra benti Björn á, að Jóhann Hauksson, þingfréttaritari Fréttablaðsins, hefði haldið því fram í blaði sínu, að Bjarni Benediktsson, faðir Björns, hefði sem dómsmálaráðherra ráðið mestu um þær símahleranir sem beitt hefði verið í nokkur skipti á árum kalda stríðsins. Eins og Björn benti hins vegar á, þá voru engir símar hleraðir nema fengnum úrskurði dómstóla, og þegar á það er litið sést hversu ósanngjarnt það er að gefa til kynna að stjórnmálamaðurinn Bjarni hafi ákveðið hinar umdeildu hleranir. Björn segist á síðu sinni hafa bent bæði ritstjóra blaðsins og þingfréttaritaranum á þetta bréflega, en ekkert svar fengið. Það er vissulega ekki traustvekjandi um aðrar og jafnvel mikilvægari þjóðmálafréttir blaðsins að þingfréttamaður standi svona að málum, hvað þá ef ekkert er gert með ábendingar eins og þær sem Björn segist hafa komið á framfæri. Má ekki ætlast til þess að blaðið leiðrétti málflutning sinn og biðjist afsökunar á honum, eða þá verji framgöngu sína og reyni að hrekja athugasemdir Björns?

En Björn hefur þó fengið annað svar, ef marka má síðu hans. Hann segir að í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi hafi Jóhann Hauksson verið mættur til álitsgjafar og þar sagt að á fundi sjálfstæðismanna, vegna ákvörðunar Davíðs Oddssonar um að leita ekki endurkjörs til formanns á síðasta ári, hefði ríkt samstaða meðal allra fundarmanna nema eins. Björn segist hafa reynt að rifja upp hver það hefði verið en svo hefði komið skýringin hjá Jóhanni: Björn Bjarnason hefði farið fyrstur af fundinum og það verið til marks um andstöðu hans!

Nú veit Vefþjóðviljinn auðvitað ekki hvernig umræddur fundur hefur gengið fyrir sig, en hitt veit hann að fundarstaður tæmist varla nema með því annað hvort að allir fundarmenn gangi út á sama andartaki, eða þá að þeir geri það í einhverri röð. Það er með hreinum ólíkindum að þingfréttaritari á víðlesnu blaði, maður sem líklega vill láta taka sig alvarlega, láti svona hlut verða til þess að slá einhverju fram um hvorki meira né minna en andstöðu ráðherra við ákvörðun flokksformanns hans.

Nú heldur kannski einhver að dæmi eins og þessi séu öll hrein tilviljun. Vafalaust gera fjölmiðlamenn eins og allar aðrar stéttir sín „mannlegu mistök“, alveg án þess að illur hugur eða stórt samsæri búi að baki. En því miður er afar líklegt að ástandið á íslenskum fjölmiðlum sé verra en margir gera sér grein fyrir. Í því sambandi er enn ástæða til að minna á hinar stórfróðlegu bækur Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2004 og Fjölmiðla 2005, sem báðar fást í bóksölu Andríkis. Sá sem les þær bækur, fylgist upp frá því með fjölmiðlum með öðrum hætti en áður.