N
Komið hefur í ljós að innan Samfylkingarinnar gengur Jóhann Ársælsson undir dulnefninu „símastrákur“. |
ú hefur verið upplýst hver hlýðir kallinu símastrákur Samfylkingarinnar, en það er enginn annar en Jóhann Ársælsson, ríflega sextugur þingmaður af Vesturlandi. Þessi stráklingur hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna og þar áður Alþýðubandalagið nær samfellt frá árinu 1991. Hann var í miðstjórn þess flokks frá árinu 1987 og þess má einnig geta að drengurinn var fyrst kjörinn bæjarfulltrúi á Akranesi árið 1974, þá rúmlega þrítugur að aldri. Þessi skamma reynsla af starfi að stjórnmálum á líklega sinn þátt í því að hann ber virðingartitilinn símastrákur innan flokksins.
Þeir sem ekki átta sig á því hvað Vefþjóðviljinn er að fara geta flett aftur til fyrsta dags þessa mánaðar, en þá sagði frá því að formaður Samfylkingarinnar hefði reynt nýja – og frumlega, því er ekki að neita – aðferð við að útskýra hvers vegna Samfylkingin sagði skömmu fyrir kosningar í fyrra að hún væri á móti breytingum á virðisaukaskattinum og þar með á móti því að „matarskattur“ yrði lækkaður. Formaðurinn sagði að símastrákur á skrifstofu flokksins hefði tekið sig til og svarað spurningum um skattastefnu flokksins. Ekki væri þó vitað hver þessi símastrákur væri. Formaðurinn var með þessu símastrákstali líka að reyna að útskýra hvernig á því stóð að á fáeinum dögum eða jafnvel klukkustundum var skipt algerlega um stefnu og flokkurinn varð fylgjandi lækkun matarskattsins. Jóhann Ársælsson talsmaður flokksins í skattamálum hafði svarað því skriflega með orðinu „Nei.“ þegar Samtök verslunar og þjónustu spurðu stjórnmálaflokkanna um hvort þeir hygðust gera breytingar á virðisaukaskattakerfinu. Í Fréttapósti SVÞ nokkrum dögum eftir aðalfundinn segir meðal annars um könnunina: „Samfylkingin er eini flokkurinn sem ekki hefur á stefnuskrá sinni að gera breytingu á virðisaukaskattskerfinu“, en flokkurinn hafði svarað spurningu um breytingar með því að segja einfaldlega nei. Skömmu fyrir síðustu kosningar skipti Samfylkingin svo alveg um skoðun og vildi lækka virðisaukaskatt á völdum matvörum.
Símastráksskýringin var frá upphafi með versta pólitíska yfirklóri sem um getur. Ekki batnaði það þegar í ljós kom að símastrákurinn er meðal allra reyndustu þingmanna Samfylkingarinnar.
Á forsíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins segir frá bók að nafni Handbók um hollustu lambakjöts. Þeir sem rekið hafa áróður gegn kjöti, ekki síst rauðu kjöti, hrökkva sennilega við að heyra titil bókarinnar, en Vefþjóðviljinn sagði í gær frá nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar sem eru í þessum hópi. Í Bændablaðinu er eftirfarandi haft eftir matvælafræðingi hjá Matvælarannsóknum á Keldnaholti:
Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að í fitu jórturdýra er fitusýra sem nefnist konjugeruð línolsýra (CLA). Margt bendir til að þetta efni geti veitt vörn gegn offitu, krabbameinum og hjartasjúkdómum. Það má því segja að komin sé upp ný staða varðandi hollustu lambafitu. Enn er þó margt óljóst varðandi konjúgerða línolsýru. |
Nú verður því ekki haldið fram hér að bráðhollt sé að troða sig út af jórturdýrafitu, um það hefur Vefþjóðviljinn litla vitneskju og leyfir sér að láta nægja að taka undir með matvælafræðingnum að enn sé margt óljóst um konjúgerða línolsýru. Hins vegar er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu sjónarmiði um jórturdýrafituna, því að sumir virðast álíta að þeir hafi af einhverjum ástæðum komist yfir fullkominn sannleika um það hvað fólki sé hollt og hvað óhollt. Sumir virðast þeirrar skoðunar að um þetta geti aðeins verið eitt réttmætt sjónarmið og hafa þar með af einhverjum óskiljanlegum ástæðum misst af allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um næringarfræði síðustu ár og áratugi. Þeir eru sannfærðir um og telja það hafið yfir allan vafa að einungis ein samsetning fæðuefna sé hin rétta, allar hinar samsetningarnar séu rangar. Og ekki aðeins fyrir þá sjálfa, heldur fyrir alla aðra líka.
Það er ekki nóg með að sumir hafi höndlað hinn endanlega sannleika um næringarnám mannsins, þeir telja jafnframt að þeir hafi rétt á því að þröngva þessari skoðun sinni upp á annað fólk. Mikið óskaplega hlýtur það að vera þægileg tilfinning að vita allt svona miklu betur en næsti maður og geta efasemdalaust tekið að sér að ráðstafa hans lífi ekki síður en sínu eigin.