B
Þótt Goldwater tapaði stórt í forsetakosningunum 1964 urðu áhrif hugmynda hans mikil. En eru þau að fjara út? |
andaríska dagblaðið The Wall Street Journal birti í liðinni viku þrjár greinar um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem verðskulda athygli.
„Wise men or wise guys?“ heitir grein eftir Harold Bloom þar sem hann lýsir tvennskonar áhyggjum af komandi kosningum. Í fyrsta lagi telur Bloom að veraldleg þekking sé að víkja fyrir trúarlegri vissu í bandarískum stjórnmálum og í öðru lagi að þekking eða vísdómur sé yfir höfuð ekki til þess fallin að auka á frama manna í stjórnmálum. Ekki svo að skilja að Bloom sé með þessu að taka undir þá kjánalegu meinloku að núverandi forseti sé einhverskonar heimskingi heldur er hann fyrst og fremst að benda á að það sé lítið rúm fyrir efa í stjórnmálum. Hvort sem er í pragmatisma Kerrys eða íhaldssemi Bush. Vefþjóðviljinn efast ekki um að það er rétt hjá Bloom að þörf er á meiri efa í stjórnmálin. Það á við um bandarísk stjórnmál jafnt sem önnur. Niðurstaða greinar Blooms er hins vegar meinloka. Meinlokan er sú að allt verði á einhvern hátt betra ef okkur aðeins tekst að bæta stjórnmálamennina og þar með stjórnmálin. Það er hæpið að stjórnmálin myndu breytast svo nokkru nemi þó svo allir frambjóðendur væru skyldaðir til að sækja tíma hjá Bloom.
Steve Forbes fullyrðir í grein sinni: „One more for the Gipper.“ að kjósendur hafi ekki staðið frammi fyrir skýrari kostum síðan Ronald Reagan fór fram gegn Jimmy Carter árið 1980. Forbes segir að arfleifð Carters innanlands hafi verið háir skattar, efnahagslega stöðnun og stjórnlaus verðbólga og utanríkismál hafi einkennst af veikum vörnum og veikri og fálmkenndri utanríkisstefnu. Reagan hafi á hinn bóginn lofað að lækka tekjuskatt, hafa taumhald á ríkisútgjöldum og fækka reglugerðum auk þess að styrkja varnir og setja fram ákveðna utanríkisstefnu, sérstaklega gagnvart Sovétríkjunum. Reagan stóð svo að miklu leyti við þessi loforð sín eins og Forbes bendir á, kaldastríðið vannst, efnahagurinn blómstraði og hlutfall Bandaríkjanna af heimsframleiðslunni jókst úr einum fjórða í einn þriðja svo dæmi sé nefnt.
„Það kann að vera rétt hjá Forbes að kjósendum hafi ekki staðið til boða skýrari kostir síðan Reagan fór fram gegn Carter en það er samt nokkur vegur frá því að kostirnir séu jafn skýrir. Skyldleiki milli hugmyndafræði Carters og Kerrys er vissulega mikill en það sama er ekki alveg hægt að segja um hugmyndafræði Reagans og Bush yngri, þar er meiri munur á.“ |
Forbes bendir meðal annars á að Kerry muni hækka skatta, auka viðskiptahömlur og stórauka ríkisútgjöld undir yfirskini endurbóta á heilbrigðis- og menntakerfi og veifa heimsendaspádómum eins og þeim að olía sé á þrotum. Og vissulega er það rétt að Kerry er afleitur frambjóðandi með afleita stefnu en um leið mega menn ekki missa sjónar á því að Bush og stefnumál hans eru hvorki betri né verri fyrir þá sök að mótframbjóðandi hans sé ótækur. Það kann að vera rétt hjá Forbes að kjósendum hafi ekki staðið til boða skýrari kostir síðan Reagan fór fram gegn Carter en það er samt nokkur vegur frá því að kostirnir séu jafn skýrir. Skyldleiki milli hugmyndafræði Carters og Kerrys er vissulega mikill en það sama er ekki alveg hægt að segja um hugmyndafræði Reagans og Bush yngri, þar er meiri munur á.
Þessi munur er efni greinarinnar „Bushism“ eftir John Micklethwait og Adrian Woodridge, blaðamanna á The Economist og höfunda bókarinnar The Right Nation.
Micklethwait og Woodridge benda á að allt frá því að Barry Goldwater bauð sig fram til forseta 1964 þá hafi íhaldsmenn viljað takmarka ríkisvaldið. Goldwater sagði mikilvægara að minnka ríkið en endurbæta það og Reagan lýsti því yfir að ríkið væri vandamálið en ekki lausnin. Repúblíkanar sem unnu þingið 1994 áttu sér slagorðið „government is dumb while markets are smart“ og unnu markvisst að því að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum með því að skera niður ríkisútgjöld, einmitt vegna þess og arfleifðar Reagan stóð efnahagslíf að mörgu leyti sterkum fótum á tíunda áratugnum, þrátt fyrir Clinton stjórnina.
Micklethwaite og Woodridge benda á að Bush hafi á hinn bóginn stækkað ríkið, hraðar en sjálfur Bill Clinton, jafnvel þó ekki sé horft til aukningar vegna stríðsins gegn hryðjuverkum. Bush hafi til að mynda komið í embætti með áætlanir um stækkun menntamálaráðuneytisins, stofnunar sem Newt Gingrich og félagar vildu helst leggja niður. Og útnefningarræða Bush á flokksþinginu í haust einkenndist af loforðum um að nota ríkisvaldið til að bæta líf fólks. Í stað þess að þræða einstigið milli frjálshyggju- og íhaldsmanna í Repúblikanaflokknum eins og Reagan tókst, þá hafi Bush markvisst reitt sig á þá íhaldsmenn sem ekki eru fráhverfir stækkun ríkisvaldsins. Bush virðist því hafa fallið í sömu gryfju og Kerry og Bloom, að trúa því að ríkisvaldið sé lausnin.
Það sem Reagan skildi, en hvorki Bush, Kerry né Bloom virðast skilja er sá vandi sem F.A. Hayek benti svo margoft á, að þekkingin á þörfum einstaklinga og fyrirtækja er svo dreifð um allan markaðinn og svo ört breytileg að ríkið getur aldrei safnað henni saman og þannig komið í stað markaðsins. Bush er því ekki eins rökréttur arftaki Reagans eins og Forbes heldur fram í sinni grein. Það er allt annar maður.
Ef hann hefði nú bara fæðst í Bandaríkjunum!