Áfram með héraðsfréttablöðin. Í síðustu viku leit Vefþjóðviljinn í Vikudag frá Akureyri og Sunnlenska fréttablaðið sem gefið er út á Selfossi en nú víkur sögunni að Nesfréttum, sem gefnar eru út á Seltjarnarnesi. Í nýjasta tölublaði þeirra skrifar Magnús Erlendsson stutta grein þar sem hann fjallar um lítið atvik úr bæjarmálapólitíkinni á Nesinu. En þó atvikið sé út af fyrir sig lítið, þá er það á sinn hátt dæmigert. Magnús skrifar svo:
Já, „Nú skyldi ég hlæja væri ég ekki dauð“ sagði kerlingin forðum. Þessi setning kom upp í hugann hjá undirrituðum, þegar hann fyrir nokkrum dögum og las þar nokkrar fundargerðir. M.a. mátti lesa þar fundargerð skólanefndar þar sem skólanefnd samþykkti með 4 atkvæðum – þar á meðal með atkvæði Sunnevu Hafsteinsdóttur skólanefndarmanns, að velja sameinuðum grunnskólum Seltjarnarness skólastjóra. Sunneva þessi er annar tveggja fulltrúa vinstri bræðingsins í skólanefnd. Hinn fulltrúi þeirra í skólanefnd sat hjá við atkvæðagreiðsluna um Sigfús Grétarsson skólastjóra. En svo skeður það furðulega. Næsta dag eftir téðan skólanefndarfund er boðað til aukafundar í bæjarstjórn Seltjarnarness, og fundarefnið aðeins eitt – val á skólastjóra. „Nú skyldi ég hlæja“ – því hvað skeður? Skólanefndarfulltrúinn Sunneva Hafsteinsdóttir – sem fullyrt er í eyru undirritaðs að sé eitt hundrað prósent sama Sunneva Hafsteinsdóttir sem setu á í bæjarstjórn fyrir vinstri bræðinginn, – er skyndilega hætt við að styðja val skólastjórans sem hún greiddi atkvæði deginum fyrr!! Hún situr hjá við atkvæðagreiðsluna um stöðuna. Og nú kemur fimm milljóna króna spurningin. Eigum við að hlæja eins og kerlingin forðum – eða samhryggjast vinstra liðinu hér í bænum fyrir að hafa slíkar „skopparakringlur“ í forystu bæjarmála? |
Já, er þetta ekki dæmigert? Með daginn áður. Styður hann svo ekki á næsta fundi, daginn eftir. Þetta er eins og hjá vinstri mönnum á alþingi, þar sem þeir næstum ganga af vitinu þegar lögð eru fram frumvörp eins og þau sem þeir hafa sjálfir kallað eftir árum saman. Metið á þó að vísu Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sem á dögunum greiddi atkvæði gegn frumvarpi sem hann sjálfur lagði fram. Ekki sem flokksfélagar hans höfðu lagt fram heldur beinlínis hann sjálfur. Það er kannski vegna þessa eiginleika vinstri manna, sem þeir margir eru svo hvumsa yfir málflutningi Þórs Vilhjálmssonar, fyrrverandi Hæstaréttardómara, um synjunarvald forseta Íslands. Þeim kemur kannski bara svona í opna skjöldu að maðurinn heldur fram nákvæmlega sömu afstöðu og hann hafði áður gert, en snýst ekki eins og skopparakringla eftir almenningsáliti. Og tengt Þór Vilhjálmssyni og skoðunum hans; er það ekki dæmigert þegar fræðimaður eins og Gunnar Helgi Kristinsson kemur fram aftur og aftur og heldur því fram að kenning Þórs sé sett fram af óánægju einhverra með forsetatign Ólafs Ragnars Grímssonar? Þór Vilhjálmsson setti sjónarmið sín fram í vandlega rökstuddri og ýtarlegri fræðiritgerð árið 1994, í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur, og þá datt ekki nokkrum manni í hug að Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður yrði nokkru sinni kallaður til tilkomumeiri starfa.
Talandi um Ólaf Ragnar. Össur Skarphéðinsson varð um helgina stórorður um þá yfirlýsingu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um að stjórnarflokkarnir hygðust hefja endurskoðun stjórnarskrárinnar. Össur taldi að slíkt yrði að ræða í hópi forystumanna flokkanna en mætti ekki bara tilkynna í fjölmiðlum. Sami Össur hefur undanfarna daga varla átt nægilega stór orð til að fagna því að Ólafur Ragnar Grímsson reyni að breyta hér um stjórnskipan og tilkynni það bara á blaðamannafundi. Og Ólafur Ragnar tók fram, þegar hann tilkynnti aðgerðir sínar, að hann myndi engum spurningum um þær svara. Hvernig ætli fólk hefði brugðist við ef ríkisstjórnin hefði á móti tilkynnt að hún teldi forsetann ekki hafa neitt synjunarvald og því færi engin þjóðaratkvæðagreiðsla fram? Og hefðu ráðherrar bætt því við að þeir væntu þess að fólk myndi skilja það að þeir myndu engum spurningum svara, þó þeir myndu kannski gera það við hentugra tækifæri? Ætli fólk hefði átt orð yfir „valdhrokann“? Hvað má eiginlega segja um framkomu Ólafs Ragnars Grímssonar?