Einungis 39% íbúa núverandi og verðandi ríkja Evrópusambandsins hafa nokkru sinni heyrt minnst á það að unnið hafi verið að gerð stjórnarskrár fyrir sambandið. Þetta væri nú ef til vill ekki í frásögur færandi ef yfir eitt hundrað stjórnmálamenn hefðu ekki eytt 15 mánuðum í að skrifa stjórnarskrána, látlausar fréttir séu sagðar af málinu og allt sé reynt til að vekja áhuga á verkinu. Það kemur því tæplega á óvart að talsmaður Evrópusambandsins lýsti vonbrigðum sínum með niðurstöðuna, en gera má ráð fyrir að stuðningur í sumum löndum við gerð stjórnarskrár fyrir sambandið valdi enn meiri vonbrigðum. Þannig má reikna með að stuðningsmönnum aukins samruna innan sambandsins, með öðrum orðum þeim sem hafa tekið trú á evrópuhraðlestina, þyki verra að í nokkrum löndum er minnihluti íbúanna fylgjandi því að stjórnarskráin sé samin. Meðal ríkja í þessum hópi eru Bretland, Danmörk og Svíþjóð, og íbúar þeirra geta – ef stjórnarskráin verður á annað borð borin undir þjóðaratkvæði – farið að búa sig undir síendurteknar kosningar þar til þeir þreytast og samþykkja stjórnarskrána að lokum.
Sum ríki Evrópusambandsins þekkja þessar aðferðir þess frá því tekin var afstaða til evrunnar, en að vísu þótti í fæstum tilvikum ástæða til að leyfa fólki að greiða atkvæði um gjaldmiðilinn. Þessi gjaldmiðill, sem átti að jafna og lækka verðlag í álfunni, hefur að því er virðist náð hvorugu því markmiði. Munur á verðlagi milli landa virðist ekki hafa jafnast og því hefur oft verið haldið fram að verðlag hafi hækkað. Þjóðverjar hafa til dæmis verið svo sáttir við þessa hækkun að þeir kalla evruna ekki lengur ‘euro’ heldur ‘teuro’. Nú hefur bæst við að fjármálaráðherra Ítalíu hefur lýst mikilli óánægju með verðhækkun þar í landi vegna upptöku evrunnar og neytendasamtök landsins halda því fram að ítölsk meðalfjölskylda hafi tapað um 250.000 krónum á verðhækkunum frá því evran var tekin upp í janúar í fyrra.