Í heillandi umræðum um Laxárvirkjun kom í gær fram óþarflega algengt sjónarmið. Rætt var við einn þeirra sem gagnrýnt hefur framgöngu Bjargar Sivjar Juhlin Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra, í málinu, en lesendum verður hlíft við að málið verði rakið enda ekki til umfjöllunar hér. Sjónarmiðið sem fram kom var á þá leið að það væri ótækt að umhverfisráðherra hefði áhuga á virkjun, enda taldi gagnrýnandinn augsýnilega að virkjun og umhverfisvernd færu ekki saman. Eins og áður segir er þess háttar skoðun algeng og þá ekki um umhverfismál sérstaklega heldur um alla málaflokka. Og það eru ekki aðeins einhverjir áhugamenn um ekki-stífluframkvæmdir í Mývatnssveit sem flytja mál sitt í samræmi við þetta sjónarmið, ráðherrarnir sjálfir virðast stundum halda að þeir eigi að hafa aðra skoðun á ákveðnum málum af þeirri ástæðu að þeir eru orðnir ráðherrar ákveðins málaflokks.
Æskilegt væri að stjórnmálamenn litu á mál í víðu samhengi en ekki eingöngu með gleraugum sérhagsmunahóps. Þó virðast ráðherrar stundum einmitt falla í þá gryfju að gerast talsmenn síns málaflokks án þess að líta á víðari hagsmuni. Sá sem gegnir embætti heilbrigðisráðherra á það til, svo dæmi sé tekið, að gerast talsmaður heilbrigðs lífernis langt umfram raunverulegar embættisskyldur. Hann telur gjarnan að hann eigi að ganga í lið með þeim sem vilja ganga lengst í að skerða frelsi annarra og hafa vit fyrir þeim. Annað dæmi sem nefna má er af utanríkisráðherra, en sá sem gegnir því embætti virðist stundum telja fátt annað mikilvægara en að efla utanríkisþjónustuna, sem felur í sér fjölgun starfsmanna og sendiráða og aukinn kostnað. Þá má taka dæmi af samgönguráðherra, en sá sem gegnir því embætti hverju sinni virðist oft og tíðum hafa tilhneigingu til að brúa hverja vík á landinu og bora í hvern hól. Í huga þess sem gegnir því embætti virðist sem almennir hagsmunir skipti litlu en aukin útgjöld til samgöngumála séu brýnasta hagsmunamál hins almenna manns.
Hver skýringin er á slíku mynstri hjá ráðherrum er ekki gott að segja. Ef til vill gleyma þeir sér bara í málaflokki sínum, umkringdir embættismönnum og sérhagsmunahópum, sem sjá ekkert annað en einmitt þennan eina málaflokk. Önnur skýring kann að vera að ráðherrar telji að eina leiðin til að komast í fjölmiðla, og þar með að vera nægilega þekktir og þykja duglegir, sé að vera sífellt að gera eitthvað eða sjást berjast fyrir sérhagsmunum málaflokksins. En hver sem skýringin er, þá leiðir hún stundum til þeirrar óæskilegu framgöngu sem hér er lýst. Og þessi framganga á ef til vill sinn þátt í þeim misskilningi sérhagsmunahópa, að ráðherra hvers málaflokks eigi að vera sérstakur baráttumaður fyrir öfgafyllstu sjónarmiðum sem málaflokkurinn býður upp á.