Miðvikudagur 28. janúar 2004

28. tbl. 8. árg.

Í

 gær voru opnuð tilboð í jarðgöng undir Almannaskarð við Hornafjörð og hljóðar lægsta tilboð upp á tæpar 800 milljónir króna. Þessi göng verða á hringveginum og þess vegna má gera ráð fyrir að stundum verði einhver umferð um göngin, en helsta röksemdin fyrir að grafa þau hefur þó verið að brekkan fyrir ofan Hornafjörð sé brött og erfið að vetrarlagi. Miðað við þessar tölur verða Almannaskarðsgöngin „ódýr“ þegar litið er til ýmissa annarra ganga sem sem sumir láta sig dreyma um og eru jafnvel í undirbúningi eða enn lengra komin. Engu að síður er afar ósennilegt að göngin geti nokkurn tímann borgað sig, enda vita þeir sem hafa ekið þann vegarspotta sem um ræðir að umferð þar er lítil. Göngin geta engu að síður talist „þjóðhagslega hagkvæm“, enda er það hugtak sem kunnugt er oftar en ekki notað um þær framkvæmdir sem eru alls ekki hagkvæmar en stjórnmálamenn ákveða engu að síður að ráðast í fyrir skattfé. Skattgreiðendur eiga að sannfærast um að fyrst framkvæmd er „þjóðhagslega hagkvæm“ þá sé ekki hægt að vera á móti því að hún fái úthlutun af skattfé.

Sjaldan er ein báran stök og í gær voru skattgreiðendur líka gladdir með ályktun frá bæjarráði Fjarðarbyggðar um mikilvægi jarðganga á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Með ályktuninni er bæjarstjóra falið að láta endurvinna hagkvæmniáætlun fyrir þau göng. Miðað við reynsluna af því hvernig það endar þegar þrýstihópar setja fjármagn í að ýta á eftir sérhagsmunum sínum geta skattgreiðendur gert ráð fyrir að á allra næstu árum verði þeir látnir greiða nokkra milljarða fyrir umrædd göng, en jarðgöng kosta yfirleitt einhverja milljarða. Ágætt dæmi eru Héðinsfjarðargöngin sem kosta yfir sex milljarða króna, eða um 2,5 milljónir króna á hvern íbúa í nágrenninu. Önnur göng, sem þjóna munu Fjarðarbyggð líkt og göngin milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, eru göngin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Þau munu samkvæmt áætlun kosta nálægt fjórum milljörðum króna, eða sem nemur um 1,2 milljónum króna á hvern íbúa Fjarðarbyggðar. En það er víst ekki nóg. Nú vill bæjarráð fleiri göng og meira fé, enda munu ný göng „auka allt öryggi hvað flutningana varðar, stuðla að eflingu samfélagsins í Fjarðabyggð, gera kleift að auka hagkvæmni við stjórnun sveitarfélagsins og bæta nýtingu allra opinberra stofnana í sveitarfélaginu,“ eins og segir í ályktuninni. Ætli það finnist mörg fjöll á landinu sem ekki má gata með sama rökstuðningi?