Ég gat ekki sofnað eitt kvöldið og kveikti á útvarpinu. Þar var sagt að Sam Walton væri ríkasti maður Bandaríkjanna. Ég hugsaði með mér: Sam Walton, getur það staðist, hann var í bekk hjá mér. Og ég varð alveg ofboðslega spennt. |
– Helen Williams fyrrverandi sögukennari í Hickman skólanum í Columbia, Missouri. |
Það voru ekki liðin nema rétt rúmir tveir áratugir frá því SamWalton opnaði fyrstu Wal-Mart verslun sína í Rogers Arkansas þegar til tímaritið Forbes sagði frá því að hann væri ríkasti maður Bandaríkjanna, í október 1985. Ef marka má sjálfsævisögu hans, Sam Walton – Made in America, kom það fleirum í opna skjöldu en gömlum kennurum hans, þar á meðal honum sjálfum. Viðbrögðin létu hins vegar ekki á sér standa. Fjölmiðlar hófu umsátur um fjölskyldu hans og heimili. Fólk um víða veröld hóf að skrifa honum og jafnvel banka upp á til að falast eftir fjárstuðningi. „Margir þeirra hafa vafalaust verið fulltrúar fyrir göfug málefni en ég þykist viss um næstum því hver einasti rugludallur og bjáni úr röðum svindlara heimsins hafði samband. Ég man sérstaklega eftir konu sem kom sér beint að efninu og sagði „Mig hefur alltaf langað í 100.000 dala hús en aldrei haft efni á því. Geturðu gefið mér pening fyrir því.“ Beiðnirnar berast enn, það er hringt og skrifað, beðið um nýjan bíl, pening til að komast í sumarfrí eða til tannlæknis, hvaðeina sem fólki dettur í hug,“ segir Walton í ævisögu sinni. Það er líklega óþarft að taka það fram að þótt Walton hafi ekki tekið þessu fólki vel sem bar sig upp við hann eftir að tíðindi bárust í Forbes fylgdi hann í fótspor svo margra forvera hans í hópi „ríkasta manns Bandaríkjanna“ og gaf stórfé til alls kyns velferðarmála, skóla, vísinda- og menningarstofnana þótt fæst af því færi mjög hátt.
Hvers vegna er Vefþjóðviljinn að rifja upp ævintýri Sam Waltons hér? Jú vegna þess að stundum ber á því að mikil velgengni eða ríkidæmi manna sé litið hornauga. Stundum er eins og menn telji að ekkert gott geti komið frá þeim sem eignast hafa furðulega mikla peninga. Í mörgum tilvikum hafa menn þó orðið ríkir á sama hátt og Sam Walton; með því að gera mjög mörgum viðskiptavinum sínum mjög til hæfis. Engu að síður er eins og sumir sjái bara svartnætti þegar menn hafa „rakað saman auði“ eins og það er gjarnan orðað til að sýna fyrirlitninguna sem rækilegast. Engum ber skylda til að láta sér líka vel við milljónamæringa en er andúðin á þeim ekki oft einkennilega mikil? Wal-Mart hefur fengið sinn skerf af þessari andúð á velgengni og veitingastaðir McDonald’s virðast skotspónn nær allra sem þurfa að finna reiði sinni útrás, hvort sem það er vegna mölflugu í útrýmingarhættu í Alsír eða alþjóðavæðingar. Loddararnir sem reyndu fyrir sér á tröppunum hjá Walton segja nefnilega ákveðna sögu. Þeir báru ekki óskir sínar upp við Walton af tilviljun. Það er kannski óþarft að segja það en hér er það látið flakka samt: ríkt fólk ver stærri hluta af tekjum sínum í sparnað og fjárfestingar en þeir sem minna hafa. Þessar fjárfestingar geta verið ný fyrirtæki, menningar- eða góðgerðarmál. Óvenjulegur auður opnar ný tækifæri. Ekki aðeins þeim sem situr á gullkistunni heldur ekki síður þeim sem hafa góðar hugmyndir, hvort sem þær eru um fyrirtækjarekstur, vísindastarf, list eða velferð náungans. Þetta fékk Hjálpræðisherinn að reyna á dögunum þegar ekkja stofnanda McDonald’s arfleiddi samtökin að yfir 100 milljörðum íslenskra króna. Áður hafði hún gefið ýmsum öðrum samtökum mörg hundruð milljónir dala.