Í Vefriti fjármálaráðuneytisins sem kom út fyrir helgi er fjallað um fjölgun opinberra starfsmanna á síðustu árum. Tilefni umfjöllunarinnar eru skrif Samtaka atvinnulífsins frá því fyrr í þessum mánuði og Vefþjóðviljinn greindi frá. Þar kom fram að fjölgun opinberra starfsmanna hefði verið 17,3% á árunum 1997 til 2002, en starfsmönnum í einkageiranum hefði aðeins fjölgað um 8% á sama tímabili. Fjármálaráðuneytið segir að þessar tölur um fjölgun opinberra starfsmanna standist ekki, því að Samtök atvinnulífsins hafi talið með starfsmönnum ríkisins menn sem vinna í einkageiranum. Rétt tala um fjölgun opinberra starfsmanna er samkvæmt fjármálaráðuneytinu um 13,5%, sem er engu að síður langt umfram fjölgunin í einkageiranum þrátt við að vera nokkru hagstæðari hinu opinbera en talan sem Samtök atvinnulífsins höfðu reiknað út. Fjölgun starfsmanna hins opinbera hefur þess vegna, hvaða viðmiðun sem notuð er, verið allt of mikil og mun meiri en fjölgunin hjá einkafyrirtækjunum. Þetta er mikið áhyggjuefni, því að það eru starfsmennirnir í einkageiranum sem standa undir kostnaðinum við opinberu starfsmennina og þegar þeim fækkar miðað við opinbera starfsmenn kallar það fyrr eða síðar á auknar byrðar.
Annað sem ekki er síður umhugsunarvert í svari fjármálaráðuneytisins er skipting fjölgunar opinberra starfsmanna milli ríkis og sveitarfélaga. Þegar tekið hefur verið tillit til flutnings Sjúkrahúss Reykjavíkur frá borginni til ríkisins mun aukning starfsmanna ríkisins hafa verið 3,5% á fyrrnefndu tímabili, sem er minni aukning en hjá einkageiranum og þó að það sé vitaskuld ekki fagnaðarefni að ríkisstarfsmönnum skuli fjölga er þó bót í máli ef þeim fjölgar hægar en starfsmönnum einkageirans. Vefrit fjármálaráðuneytisins gefur því miður ekki upp tölu um fjölgun starfsmanna sveitarfélaganna, en segir þá fjölgun hafa verið „allnokkru meiri en hjá ríkinu“. Sé talan 3,5% hjá ríkinu rétt er óhætt að segja að fjármálaráðuneytið kveður þarna ekki fast að orði, því að ljóst má vera að fjölgunin hjá sveitarfélögunum hefur að minnsta kosti verið vel umfram 13,5% miðað við þær tölur sem fram koma í Vefriti fjármálaráðuneytisins.
Slakur rekstur sveitarfélaganna og stöðug útþensla þeirra og skattahækkanir eru í seinni tíð orðinn alvarlegur vandi sem sveitarstjórnarmenn virðast enga burði hafa til að leysa. Og miðað við málflutning þeirra virðast fæstir þeirra hafa nokkurn áhuga á að leysa þennan vanda, ef þeir gera sér þá grein fyrir honum, þó að á því séu vitaskuld undantekningar. Forystu um óráðsíuna hefur R-listinn í Reykjavík, þar sem skuldum er safnað á sama tíma og skattar eru hækkaðir, svo óhætt er að segja að hagkvæmni stærðarinnar sé hugtak sem ekki hefur sannað sig við stjórn höfuðborgarinnar á síðustu árum. Þetta taumleysi sveitarfélaganna hefði fyrir löngu átt að verða til þess að ríkið hætti við áform sín um að flytja verkefni til þeirra, en hugmyndir um slíkt eru af einhverjum ástæðum sívinsælar meðal stjórnmálamanna. Það sem ríkið ætti að gera er að flytja verkefni til einkaaðila en ekki sveitarfélaga. Það hefur fyrir löngu sýnt sig að með flutningi verkefna til einkaaðila má ná fram meiri hagkvæmni í rekstri og þar með spara fé, en með flutningi verkefna til sveitarfélaga virðist niðurstaðan aðeins verða aukin heildarumsvif hins opinbera, þó að umsvif ríkisins sjálfs kunni að dragast saman.