Það má líta á samkomulagið [um Kyoto-bókunina] sem sigur fyrir samningafærni Evrópumanna um leið og það gefur Bandaríkjunum langt nef. Þau trúðu því í mars að Kyoto-bókunin væri aðeins froða og að ef þau snerust gegn henni myndi hálfur heimurinn fylgja þeim eftir. |
– Frétt Ríkisútvarpsins af samningaþrasi um Kyoto bókunina 24. júlí 2001. |
Vefþjóðviljinn hefur um árabil lýst efasemdum um svonefnda Kyoto bókun sem ætlað er að setja ríkjum skorður við útblæstri svonefndra gróðurhúsalofttegunda. Bókunin er dæmi um ósveigjanlegt regluverk gegn hugsanlegum breytingum sem hugsanlega eru til hins verra. Þróunarlöndin eru undanþegin bókuninni, meðal annarra fjölmenn lönd eins og Kína og Indland, og það gæti haft það í för með sér að „mengandi“ iðnaður flyttist frá Vesturlöndum til þróunarlandanna þar sem verri tækni er notuð við orkuframleiðslu og iðnað. „Hnattræn mengun“ gæti því aukist í kjölfarið. Flest bendir einnig til að það yrði ódýrara að takast á við óæskilegar afleiðingar þessara breytinga í stað þess að reyna að koma í veg fyrir þær af jafn veikum en dýrum mætti og Kyoto bókunin gerir ráð fyrir. Aðrir hafa um árabil viljað að Ísland yrði aðili að bókuninni. Þingmenn „jafnaðarmanna“ lögðu strax árið 1998 fram tillögu til þingsályktunar um að „Alþingi feli ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.“ Á þeim tíma var ekki gert ráð fyrir Ísland fengi nein sérákvæði vegna nýtingar á vatnsafli landsins til stórframkvæmda. Síðar fékkst slíkt ákvæði í bókunina og Alþingi staðfesti hana. Samfylkingin var því að leggja til að Íslendingar undirrituðu samning sem var mun verri en síðar náðist að semja um. Hefði ríkisstjórnin farið að ráðum Samfylkingarinnar á þessum tíma hefði það komið í veg fyrir að álverið í Straumsvík hefði verið stækkað og frekari stækkun þess ásamt stækkun á Grundartanga og álverið á Reyðarfirði væru úr sögunni.
Áður en Ísland staðfesti bókunina hafði verið haldið uppi linnilausum áróðri af umhverfissamtökum og öðru forsjárhyggjuliði að Íslendingar yrðu sér til skammar á alþjóðavettvangi ef þeir staðfestu ekki bókunina. Á endanum gerðu Íslendingar það svo eftir að hafa fengið fyrrnefnd sérákvæði. En bókunin hefur ekkert gildi nema rúmur meirihluti þeirra ríkja, mælt í CO2 ígildum, sem upphaflega áttu að gerast aðilar að henni staðfesti hana. Það hefur enn ekki gerst og enn hefur enginn orðið sér til skammar nema kannski ýmis ríki Evrópusambandsins sem staðfestu bókunina en ekkert bendir til að þau muni fara eftir henni. Um nokkurt skeið hefur það svo oltið á afstöðu Rússa hvort bókunin fengi eitthvert gildi. Ýmsir sérfræðingar Rússa telja hugsanlega hlýnun andrúmsloftsins verða til hagsbóta fyrir landið og Kyoto bókunin setji hagvexti einnig skorður. Tíðindi frá Rússlandi um þessar mundir benda til að Rússar muni ekki fullgilda Kyoto bókunina. Ekki er ljóst hvort það er endanleg afstaða þeirra eða hvort þeir ætla að nota málið sem skiptimynt í viðræðum um önnur mál við hina samningafæru Evrópumenn.