Laugardagur 6. desember 2003

340. tbl. 7. árg.

Vefþjóðviljinn hefur af og til vikið að útvarpsþættinum Speglinum, sem Ríkisútvarpið sendir út á tveimur rásum dag eftir dag. Í gær barst blaðinu svo bréf frá „ritstjóra“ þáttarins, Friðriki Páli Jónssyni, og er Vefþjóðviljinn fús að deila því bréfi með lesendum sínum. Jafnfúst reyndist blaðið vera til að gera nokkrar athugasemdir við bréf ritstjórans og er þær að finna þar fyrir aftan.

Þið hafið oft sýnt Speglinum áhuga en slæmt er þegar þið greinið ekki rétt frá, svo sem eins og í gær, 4. desember 2003. Ykkur til upplýsingar eru umsjónarmenn þrír. Að auki kemur einn liður Spegilsins á hverjum degi frá Fréttastofu Útvarpsins. Og víkjum þá að því þar sem þið skrifið: „Faglegt hlutleysi umfjöllunarinnar fólst í því að rætt var við þrjá fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd, en engan talsmann stjórnarinnar.“ – Já, ekki lítur þetta vel út, en víkkum aðeins sjónarhornið.

Í hádegisfréttum fréttastofunnar 3. des. var næstfremsta frétt um fjárlagafrumvarpið og alllangt viðtal við Einar Odd Kristjánsson, varaformann fjárlaganefndar, fulltrúa stjórnarinnar.

Og hvað segja fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd um þetta sama mál? Það er geymt til kvölds og fréttastofan ákveður að birta megnið af því í Speglinum. Það var framlag fréttastofunnar í Spegilinn. Í kvöldfréttum klukkan 18 sama dag var eftirfarandi frétt með tilvísun í Spegilinn:

„Stjórnarandstaðan á Alþingi gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að gera ekki ráð fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum við afgreiðslu fjárlaga næsta árs. Meirihluti fjárlaganefndar leggur ekki fram neinar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið fyrir þriðju umræðu um það á morgun, en slíkt er óvenjulegt. Samkvæmt því verður ekki veitt viðbótarfé til stofnana sem undanfarið hafa gert grein fyrir mikilli fjárþörf sinni, má þar nefna Landspítala-Háskólasjúkrahús, Háskóla Íslands auk framhaldsskóla og sveitarfélaga. Einar Oddur Kristjánsson varaformaður fjárlaganefndar sagði í dag að enginn ágreiningur væri milli ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál. Rætt verður við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í fjárlaganefnd í Speglinum eftir fréttir.“

Svipað er um öryrkjamálið að segja, það var talað við ráðherra í fréttum og síðan við formann Öryrkjabandalagsins í Speglinum, framlag fréttastofunnar …

Vona að þetta eyði misskilningi ykkar …

Kveðja, Friðrik Páll Jónsson, ritstjóri Spegilsins.

Um leið og Vefþjóðviljinn þakkar bréf ritstjóra Spegilsins vill hann nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi er ástæða til að vekja athygli á því að eins og fram kemur í bréfi ritstjórans hefur Vefþjóðviljinn oft fundið að vinstri-slagsíðu Spegilsins og ekki hefur verið gerð tilraun til að „eyða misskilningnum“ í þeim aðfinnslum. Þetta segir ef til vill nokkra sögu, en sennilega er meiri sögu að hafa úr ákafri baráttu vinstri manna undanfarið fyrir því að engar breytingar megi gera á Speglinum eða vinnubrögðum við hann. Vinstri menn virðast leggja höfuðáherslu á að núverandi umsjónarmenn og engir aðrir verði einráðir um þáttinn, en ekki einu sinni fréttastofa Ríkisútvarpsins megi bera ábyrgð á honum. En látum þetta liggja á milli hluta og lítum efnislega á það sem ritstjóri Spegilsins segir í bréfi sínu:

Ritstjórinn bendir réttilega á að rætt var við varaformann fjárlaganefndar í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 3. desember síðastliðinn, en þar með er langt því frá öll sagan sögð. Fréttin í hádeginu gekk út á það eins og fréttir af ríkisfjármálum gera iðulega að fé skorti víða hjá hinu opinbera. Samtalið við varaformann fjárlaganefndar gekk út á fjárhagsvanda ríkisstofnana og hann var fenginn til að svara því hvers vegna svo litlu væri eytt í þessar stofnanir. Útgangspunkturinn í fréttinni um fjárlögin var því að fé skorti og að of litlu væri eytt, sem sagt einmitt sá punktur sem stjórnarandstaðan vildi ræða.

Eins og ritstjóri Spegilsins bendir á með tilvitnun sinni í kvöldfréttatímann var haldið áfram að ræða málið á þessum nótum í kvöldfréttum, nema að þá var sagt frá harðri gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Og, eins og Vefþjóðviljinn hefur þegar fjallað um, var enn bætt í með umfjöllun Spegilsins. Þar var reyndar gengið alla leið og rætt við þrjá fulltrúa stjórnarandstöðunnar, sem ræddu meintan fjárskort ýtarlega.

Við þetta má bæta að það hvort einstakir pistlar eru „framlag fréttastofunnar“ eða ekki breytir engu um umfjöllun Spegilsins eða jafnræði í þeirri umfjöllun. Umfjöllun hans er jafn bjöguð eftir sem áður og pistlarnir eru jafn mikið pistlar í Speglinum hvort sem fréttastofan útbýr þá eða umsjónarmenn Spegilsins. Og umfjöllun Spegilsins batnar ekki nema síður sé við það að í tveimur fréttatímum fyrr um daginn hafi sama slagsíðan verið í umfjöllun og í Speglinum sjálfum.

Víkjum þá að umfjölluninni um aukinn stuðning við öryrkja, en þar misstígur ritstjóri Spegilsins sig enn hrapallegar en í athugasemdum sínum um umfjöllunina um fjárlagafrumvarpið. Ritstjórinn segir: „Svipað er um öryrkjamálið að segja, það var talað við ráðherra í fréttum og síðan við formann Öryrkjabandalagsins í Speglinum, framlag fréttastofunnar …“ Þarna á aftur að kenna fréttastofunni um slagsíðu Spegilsins, en lítum á staðreyndir málsins.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þann 26. nóvember síðastliðinn var fjallað um öryrkjamálið nýja, og fréttin hófst með þessum orðum: „Enn stefnir í ófrið milli öryrkja og ríkisstjórnarinnar, nú vegna samnings um hækkun örorkubóta sem kostar meira en þann milljarð sem áætlaður er í fjárlagafrumvarpinu.“ Eftir þennan inngang var málið reifað áfram og loks var spiluð upptaka frá Alþingi þar sem heilbrigðisráðherra flutti ræðu, en reyndar ekki rætt við hann eins og fram kemur í bréfi ritstjóra Spegilsins, þó það skipti svo sem ekki höfuðmáli. Eftir að spilaður hafði verið bútur úr ræðu ráðherrans var spilaður bútur úr ræðu Helga Hjörvar, sem var eins og hans er von og vísa. En þó að ekki hafi verið rætt við ráðherrann í fréttatímanum var rætt við annan mann, nefnilega formann Öryrkjabandalagsins, sem fékk gott rúm til að koma sjónarmiðum sínum að. Á heildina litið er því réttara að segja að hádegisfréttirnar hafi verið að meginhluta til gagnrýni á ríkisstjórnina en ekki viðtal við ráðherra!

Í kvöldfréttum var svo gengið mun lengra og það litla jafnvægi sem var í hádegisfréttunum var á bak og burt. Fréttin hófst með þessum orðum: „Formaður Öryrkjabandalagsins hvetur alla til að fylgjast grannt með gangi mála á Alþingi á næstu dögum. Bandalagið fordæmir harðlega fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að standa ekki við samning sinn um hækkun örorkubóta öryrkja nú á Evrópuári fatlaðra. Í ályktun sem Öryrkjabandalagið sendi frá sér að loknum fundi í dag segir að þúsundir öryrkja hafi trúað því og treyst að óhugsandi væri með öllu að sama ríkisstjórnin mundi freistast til að láta þetta fyrirferðamikla kosningamál mæta afgangi strax á fyrsta þingi sínu. Öryrkjabandalag Íslands skorar á þá þingmenn sem vísuðu til samningsins við síðustu Alþingiskosningar að láta samvisku sína og hana eina ráða för þegar þetta stóra mál verður tekið fyrir á Alþingi. Garðar Sverrisson formaður Öryrkjabandalagsins segir að bandalagið hvetji alla öryrkja, ættingja þeirra, vini og stuðningsmenn að fylgjast grannt með frammistöðu hvers einasta þingmanns á næstu dögum.“ Eftir þessa „hlutlausu“ frásögn var klykkt út með því að ræða aftur við formann Öryrkjabandalagsins, en samtalið við ráðherrann eða aðra frá þeirri hlið málsins var hvergi að finna.

Og það var sem sagt í framhaldi af þessum tveimur fréttum sem Spegillinn tók sig til og útvarpaði enn einum pistlinum frá sömu hlið málsins, þar sem meginefnið var enn eitt viðtalið og það afar langt við formann Öryrkjabandalagsins.

Nú er svo sem hugsanlegt um það getur Vefþjóðviljinn ekkert fullyrt að þessi bjagaða umfjöllun sé öll komin frá fréttastofu Ríkisútvarpsins, en ekki frá umsjónarmönnum Spegilsins. En eins og áður segir breytir það engu um umfjöllun Spegilsins, sér í lagi þegar hún er ekkert annað en framhald á bjöguðum fréttaflutningi. Það er raunar einkennilegt að ritstjóri Spegilsins skuli um þau tvö atriði sem hann velur að svara kenna fréttastofunni um slagsíðuna. Þá má velta því fyrir sér hvað felist í því að vera ritstjóri Spegilsins, en ætla má að því starfsheiti fylgi meðal annars sú ábyrgð að gæta þess að umfjöllunin í Speglinum sé sæmilega eðlileg og í þokkalegu jafnvægi. En miðað við allar þær aðfinnslur Vefþjóðviljans sem ritstjóri Spegilsins hefur ekki gert athugasemdir við, auk allra þeirra aðfinnsluverðu pistla sem Vefþjóðviljinn hefur látið eiga sig að finna að, þá er óhætt að draga þá ályktun að umsjónarmenn Spegilsins, og þá ekki síst ritstjórinn, verði að axla nokkra ábyrgð.

Vefþjóðviljinn vill því að lokum geta þess að með bréfi ritstjóra Spegilsins tókst ekki að „eyða misskilningi“. Nær væri að segja, og þá með vísun til skrifanna hér að ofan, að efasemdir um Spegilinn hafi aukist en ekki minnkað við lestur bréfsins.