Forseti Finnlands skrapp yfir til Svíþjóðar í síðustu viku. Forsætisráðherra Finnlands skrapp svo yfir til Svíþjóðar í gær. Eftir nokkra daga fer forsætisráðherra Svíþjóðar hins vegar yfir til Eistlands en þar var forsætisráðherra Danmerkur einmitt fyrir örfáum dögum. Það er semsagt margt að gerast og mikil ferðalög hjá merkum leiðtogum.
En af hverju ætli þessir höfðingjar séu allir á iði þessa dagana? Ástæða þess er einföld. Þrýsta, þrýsta, þrýsta. Það er verið að þrýsta á Svía að kasta krónunni en hirða evruna og það er verið að þrýsta á Eista að leggja land sitt inn í sívaxandi Evrópusamband. Í báðum þessum löndum verður þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál eftir tæpar þrjár vikur svo nú styttist í að áróður ráðamanna nái hámarki. Evrópusambandið sjálft ver svo gríðarlegum upphæðum til „kynningarmála“ og ekki þarf að ræða hlutleysið í þeirri kynningu. Þetta tvennt, gríðarlegur opinber þrýstingur og látlaus „kynningarstarfsemi“ Brussel-stjórnarinnar, fylgir jafnan þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar eru vegna Evrópusambandsins en engu að síður hefur uppskeran ekki ætíð verið eins og sérfræðingarnir í Brussel höfðu hugsað sér. Danir höfnuðu Maastricht-samningnum og þeir höfnuðu evrunni. Írar reyndu að hafna Nice-samningnum en þá voru þeir bara látnir kjósa um hann aftur.
Það er nefnilega aðeins önnur hliðin sem ræður því um hvað er kosið og hvenær. Ef meirihluti kjósenda segir nei, þá er einfaldlega kosið aftur þegar stjórnvöld telja sig geta fengið nýja niðurstöðu. Ef meirihlutinni segir já, þá er aldrei kosið aftur. Það á einfaldlega að mynda stórríki Evrópu og hin áður fullvalda og sjálfstæðu Evrópuríki eiga að hverfa, hvað sem íbúar þeirra segja. Þess vegna er beitt gríðarlegum þrýstingi, áróðri og opinberu fé í baráttunni fyrir sameiningu ríkjanna. Allt er gert til að sannfæra fólk um að slík verði þróunin, hvað sem hver segir.
Þetta er sama aðferðin og svipaðir aðilar nota við ekki ósvipað verkefni á Íslandi, sameiningu sveitarfélaga. Ef íbúar hafna sameiningu, þá er kosið aftur. Ef íbúar samþykkja sameiningu þá er aldrei kosið aftur. Opinberar nefndir eru settar á fót og þær þrýsta og þrýsta. Félagsmálaráðuneytið stendur fyrir átaki og kynningarstarfsemi í sama tilgangi. Allt til að minni sveitarfélögin láti undan og renni inn í þau stærri, sem í framhaldinu taki að sér stærri, flóknari – og yfirleitt dýrari og óþarfari – verkefni, sem hinn almenni íbúi hefur vitaskuld því minna um að segja sem sveitarfélögin eru stærri. Auðvitað má ímynda sér tilvik þar sem sameining sveitarfélaga er frá almennu sjónarmiði skynsamleg aðgerð. En þar til það liggur fyrir með skynsamlegum hætti, þá er rík ástæða til að hvetja íbúa til að gjalda mikinn varhug við tillögum um sameiningu sveitarfélaga. Því minni sem sveitarfélög eru, þeim mun minni líkur eru á að þau ráðist í gæluverkefni þrýstihópanna. Ef verkefni sem sveitarfélög vilja ráðast í eru í raun skynsamleg, þá er líklegt að þau geti leyst þau, annað hvort með hagræðingu eða þá með samstarfi sín á millli. Því stærri sem sveitarfélög eru, þeim mun auðveldara er það fyrir agalausa stjórnendur þeirra að kasta miklum fjárhæðum á glæ án þess að íbúarnir fái rönd við reist. Meðal annars þess vegna eru stjórnendur áhugasamir um sameiningu og meðal annars þess vegna ættu íbúar að jafnaði að hafna hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga.