Í vikunni voru settir upp nýir vegvísar í vínbúðunum í Smáralind og Hafnarfirði af sömu gerð og settir voru upp í Kringlunni og Smáralind fyrr í sumar. Vegvísarnir mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum og starfsfólki vínbúðanna þar sem þægilegra er að rata að einstökum tegundunum vína í búðunum og þar að auki falla þeir vel að innréttingum búðanna. |
– frétt frá 18. júlí á heimasíðu ÁTVR. |
Þ
Menn fá vatn í munninn þegar myndir af atvr.is eru skoðaðar. Þá kemur sér vel að aðgengið hefur verið bætt með vegvísum. |
ví betra aðgengi að áfengi þeim mun meiri drykkja, segja þeir. Þegar ríkið tók sér einokun til að selja áfengi, eftir að hafa bannað áfengið um hríð, var það einkum vegna þess að kenningin um að áfengi sem keypt er í sérstökum búðum á afmörkuðum tíma á háu verði sé hættuminna en áfengi sem keypt er án allra slíkra skömmtunartilburða. Og ÁTVR mátti lengi vel eiga það að þjónustan var alveg hreint ömurleg. Menn voru nokkuð samkvæmir sjálfum sér í þá daga. Höfðu á röngu að standa og höguðu sér í samræmi við það.
Enn í dag eru helstu rökin fyrir rekstri ÁTVR þau sömu og þau voru. Ef ríkisstarfsmenn hætta að afgreiða áfengið og einhverjir aðrir taka við magnast áfengisbölið. En nú spretta upp nýjar afgreiðslur ÁTVR og þær bjóða sífellt upp á aukna þjónustu. Það er opið lengur en áður. ÁTVR auglýsir grimmt og er með þennan fína vef á lýðnetinu þar sem meðal annars er „fordrykkjasíða“ en þar var einmitt nýlega bætt við uppskriftum að „þremur sumarlegum kokteilum“. Það er eitt meginhlutverka ríkisins, að vísu á eftir því að sjónvarpa Largo, að tryggja nægt framboð af sumarlegum fordrykkjauppskriftum á netinu. Verslanir ÁTVR eru nú innréttaðar samkvæmt nýjustu tísku og ekkert til sparað. Jafnvel heita búðirnar ekki „ÁTVR“ lengur heldur „Vínbúðin“ en gamla nafnið hefði getað fælt frá og er vissulega ekki eins lokkandi og hið nýja. Og þegar inn er komið blasa við „vegvísar“ ríkisins svo aðgengið sé sem best.
Enn hafa menn rangt fyrir sér en eru ekki lengur menn til að standa á sannfæringu sinni heldur reyna að halda líftórunni í haftaversluninni með því að pakka henni í glanspappír.