Það er margt sem sameinar Frjálslynda flokkinn og Samfylkinguna annað en þráin um að komast ásamt Vinstri grænum í ríkisstjórn að kosningum loknum. Flokkarnir eiga það til að mynda sameiginlegt að bjóða fram „ráðherraefni“ sem ekki þekkja muninn á skattleysismörkum og persónuafslætti. Þessi misskilningur leiðtoganna tveggja hefur komið fram í sjónvarpsþáttum að undanförnu, fyrst hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og svo nokkru síðar hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Nú er það auðvitað svo að fleiri en sérfræðingar í skattaútreikningum geta verið gjaldgengir frambjóðendur og jafnvel leiðtogar. Það er hins vegar ekki sérstaklega trúverðugt þegar leiðtogar eða helstu talsmenn flokka sem ætla sér í ríkisstjórn að loknum kosningum þekkja ekki þá grundvallarhugsun sem tekjuskattskerfið gengur út á. Og þegar þetta er haft í huga þarf engan að undra að misvísandi tillögur séu settar fram, einn daginn um fjölþrepakerfi, þann næsta um hækkun persónuafsláttar eða hækkun skattleysismarka, þá um lækkun jaðarskatta og svo er jafnvel daðrað við lækkun skattleysismarka skömmu áður en settar eru fram tillögur um hækkun þessara marka og óbreyttan jaðarskatt. Allt þetta hefur einn helsti talsmaður Samfylkingarinnar afrekað og verður það að teljast allgóður árangur.
Afrek formanns Frjálslynda flokksins eru ekki mikið minni. Hann kvartar yfir því að aðrir setji fram yfirboð og heldur að tillögur hans minnki tekjur ríkissjóðs um 10-12 millarða króna. Og til áréttingar því að litlu sé lofað – rétt eins og það sé virðingarvert að lofa litlum skattalækkunum – birtir hann jafnvel auglýsingu í blöðunum þar sem hann segir: Betra er að breyta vel en að heita vel – við lofum minna en stöndum við það. Svo kemur í ljós að tillögur hans kosta tvöfalt það sem hann hélt, eða 22 milljarða króna og þá hlýtur hann að sýna ábyrgð og breyta tillögunum. Nei, hann heldur sig við tillögurnar þó þær séu allt aðrar en hann hélt þær væru og þrátt fyrir að hann hafi gagnrýnt slíkar tillögur fyrir nokkrum dögum. Þetta er ákaflega traustvekjandi.
En það er fleira en misskilningur og hringlandaháttur í skattamálum sem sameinar Frjálslynda og Samfylkinguna, nú eru það líka dylgjurnar sem sameina. Ingibjörg Sólrún hefur lengi stundað dylgjupólitík og persónulegar árásir á andstæðinga sína, en nú hefur Guðjón Arnar slegist í hópinn. Hann hefur nú greint frá því að til séu fyrirtæki sem hafi hótað stuðningsmönnum Frjálslynda flokksins brottrekstri. Og hvaða fyrirtæki voru það sem létu svona við stuðningsmenn Guðjóns Arnar? Ja, hann vildi að vísu ekki greina frá því, ekki frekar en Ingibjörg Sólrún vill rökstyðja dylgjur sínar. Það er óhætt að segja að þau eru farin að fiska í býsna gruggugu vatni þessi tvö. Ríkisstjórn þeirra tveggja og vinstri grænna yrði vafalaust allrar athygli verð. Þá yrðu skattar líka lækkaðir duglega, enda væri Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ekki til viðræðu um annað en létta skattbyrðinni af almenningi. Það hefur alltaf verið hans helsta markmið í stjórnmálum.