Eitt af því sem svonefndir Evrópukratar hafa reynt að telja mönnum trú um er að matarreikningur Íslendinga muni lækka við inngöngu í Evrópusambandið. Þessa dagana fá Íslendingar, Norðmenn og Liechtensteinar hins vegar smjörþefinn af því hvaða hugmyndir ESB hefur um kostnað vegna matvælaframleiðslu. ESB hefur gert kröfu um að þessar þrjár EFTA þjóðir greiði stórfé til að styrkja landbúnað og aðra óarðbæra starfsemi innan ESB. Hefur verið nefnt að Íslendingar eigi að greiða nokkra milljarða króna á ári til þess arna. Tilefnið er að við stækkun ESB til austurs ganga í sambandið nokkrar þjóðir sem hafa nú fríverslunarsamninga við EFTA þjóðirnar. ESB hótar því nú að þessum samningum verði í raun rift ef EFTA þjóðirnar greiða ekki stórfé í þróunarsjóði sambandsins. Þessi þróunarsjóður er einskonar risavaxin byggðastofnun.
Í sjónvarpfréttum í fyrradag mátti heyra einn Evrópukratanna fagna þessari tilraun ESB til að kúga fé af íslenskum skattgreiðendum. Í útvarpviðtali í morgun taldi hann eðlilegt að bæði Íslendingar og ESB „gæfu nokkuð eftir“ til að sættir næðust. Íslendingar eiga sumsé að láta nokkuð af sjálfsaflafé sínu í hvert sinn sem ESB setur fram fáránlegar kröfur. Því fáránlegri sem kröfur ESB eru því meira þurfum við að borga! Í dag styrkja Íslendingar sinn eigin landbúnað um 9 milljarða króna á ári Þessi upphæð hefur verið að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu á síðustu árum. Þessi kostnaður er auðvitað hluti af matarkostnaði landsmanna. Íslendingar geta lækkað þennan kostnað með því að draga úr þessum niðurgreiðslum, auka frelsi í landbúnaðarkerfinu og opna fyrir erlenda samkeppni. Þátttaka í þróunarsjóðum ESB leiðir hins vegar til þess að matarkostnaður Íslendinga hækkar.
Í gær birti Wall Street Journal lista yfir efnahagslegt frelsi þjóða heims. Þar eru Íslendingar 11. til 14. sæti af 156 þjóðum og hafa þokast upp úr því 24. frá árinu 1997. Ísland er því meðal þeirra landa sem hefur bætt sig mest á þessum árum. Ísland flyst einnig upp um flokk milli ára og er nú komið í hóp þeirra ríkja sem standa sig best. Eitt af því sem dregur Ísland niður er eign ríkisins á viðskiptabönkum en nú er vonandi verið að ljúka sölu þeirra svo gera má ráð fyrir að á næsta ári geti Ísland verið komið upp fyrir allar ESB þjóðirnar nema Lúxemborg. Þá munu þær skattabreytingar sem nú eiga sér stað, þ.e. breytingar á tekjuskatti fyrirtækja og eignarskatti, einnig hafa jákvæð áhrif á stöðu landsins. Aðeins fjórar ESB þjóðir eru nú fyrir ofan Ísland á listanum, Bretland, Írland, Danmörk og Lúxemborg. Svo segja Evrópukratarnir að Íslendingar eigi að ganga í ESB til að auka frjálsræði í viðskiptum!