Það er ekki auðvelt að gera mönnum til hæfis. Fyrir síðustu kosningar voru allir fjölmiðlar fullir af auglýsingum frá tveimur stjórnmálaflokkum. Samfylkingin auglýsti allra flokka mest en látlausar auglýsingar þess flokks, einkum í sjónvarpi en einnig í öllum öðrum miðlum voru meira en áður hafði sést á Íslandi og það eins þótt hin undarlega stóriðjuherferð Ástþórs Magnússonar, „Virkjum Bessastaði“, væri talin með. Næst flestar auglýsingar þetta árið komu frá Framsóknarflokknum en varla kom sá auglýsingatími að ekki birtist þar Halldór Ásgrímsson og lýsti yfir persónulegu stríði á hendur „fíkniefnadjöflinum“. Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti mun minna en þessir flokkar og fór svo rólega í baráttuna að gasprarar fjölmiðlanna kvörtuðu hástöfum og töldu það hið mesta virðingarleysi við kjósendur.
Nú standa fyrir dyrum kosningar til sveitarstjórnar og enn sem komið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn auglýst meira en andstæðingar hans hafa gert. En þá bregðast sömu gasprarar hinir verstu við og hafa nú miklar „áhyggjur“ af því að Sjálfstæðisflokkurinn eyði of miklum peningum í baráttu sína! Enn er þó langt í að auglýsingar Sjálfstæðisflokksins jafnist á við það sem Samfylkingin dældi yfir landsmenn fyrir þremur árum og við það bætist að nú er ástand allt annað en var þegar Samfylkingin setti það eyðslumet sem enn stendur. Nú er mikil lægð á fjölmiðlamarkaði og auglýsingar fást á allt öðrum kjörum en þær buðust á fyrir þremur árum, svo vinstri menn ættu ekki að þurfa að hafa neitt sérstaklega þungar áhyggjur af sjálfstæðismenn setji sig á hausinn að þessu sinni.
En þó vinstri menn – og þá meðal annars þeir sem beinlínis stýrðu auglýsingaflóði Samfylkingarinnar fyrir þremur árum – séu nú alfarið á móti því að stjórnmálaflokkar kynni stefnu sína á eigin kostnað fyrir kosningar þá er ekki eins og þeir sjálfir sjái kjósendur í friði þessa dagana. Nei, nú eru þeir látlaust í fjölmiðlunum en leggja mesta áherslu á þá dagskrárliði þar sem menn kaupa mínúturnar með annarra manna fé. Vinstri menn eru nefnilega alltaf í fréttatímunum. Nú er nefnilega allt í einu líf í tuskunum í Reykjavíkurborg. Nú er allt í einu farið að opna ný hús, taka skóflustungur og skrifa undir hástemmdar og þýðingarlausar „viljayfirlýsingar“ ásamt samflokksmönnum sínum í ríkisstjórn. Allt í einu, fyrir hreina tilviljun, gerist allt núna í seinnipart maí. Meira að segja Listahátíð, sem hingað til hefur verið haldin í júnímánuði, – henni var einfaldlega flýtt fram í maí ef hún gæti orðið til að slá á stöðnunarbraginn sem verið hefur á höfuðborginni undanfarin ár.
Það er kannski ekki undarlegt að vinstri menn telji sig geta sparað við sig í hefðbundnum auglýsingum. Og vilji helst fá að múlbinda þá sem ekki geta elt þá inn í fréttatímana. Ekki fer minnihlutinn að opna ný hús eða skrifa undir „viljayfirlýsingar“ með Jóni Kristjánssyni.