Síðustu hundrað árin hefur engin þjóð reynst heimsbyggðinni betur en Bandaríkjamenn. Ekki einu sinni heldur tvívegis lögðu þeir líf milljóna hermanna sinna í sölurnar til að bjarga lýðræðisríkjum Vesturlanda þegar alger styrjaldarósigur blasti við þeim. Að styrjaldarlokum hafa þau svo veitt ýmsum ríkjum stuðning til að koma efnahag sínum á réttan kjöl. Þó er næstum enn þýðingarmeira að allan síðari hluta tuttugustu aldar voru Bandaríkin brjóstvörn frjálsra ríkja gegn yfirgangi kommúnismans en flestir átta sig á að án þeirra hefði ógnarstjórn kommúnista í Evrópu ekki staðnæmst við Múrinn. Þá voru Bandaríkjamenn óþreytandi við að andæfa kommúnistum í öðrum heimshlutum en eins og menn vita þá reyndu illmennin í Moskvu að vinna helstefnu sinni land hvar sem þau sáu til þess færi.
En það er ekki eins og þessum afskiptum Bandaríkjamanna hafi verið tekið með tómum þökkum. Því þó margir viðurkenni og þakki framlag þeirra til heimsfriðarins þá hefur undanfarna áratugi sennilega engin þjóð verið rægð eins mikið og Bandaríkjamenn. Sum ríki virðast jafnvel hafa þá utanríkisstefnu eina – fyrir utan tortímingu ríkis gyðinga auðvitað – að óska Bandaríkjunum til helvítis og í þessum ríkjum er daglegt brauð að fólk þyrpist út á götur og brenni bandaríska fána og hrópi vígorð og heitingar. Og meira að segja þykir mjög fínt á Vesturlöndum að amast við Bandaríkjunum og öllum bandamönnum þeirra. Á Vesturlöndum starfa til dæmis róttækir vinstri hópar sem tala daginn út og inn um illmennsku, hernaðarhyggju og útþenslustefnu stjórnvalda í Washington – að ekki sé minnst á gyðinga fyrir botni Miðjarðarhafs sem þetta lið hatar ekki síður. Jafnvel eru til sérstakar heimasíður og tímarit sem fjalla helst ekki um annað en þetta. Á slíkum síðum má á hverjum degi lesa nýja upprifun á einhverju atviki þar sem Bandaríkjamönnum á að hafa orðið eitthvað á.
Og hatrið til Bandaríkjanna er slíkt að þess sér stað í öllu dagfari þessa fólks. Allt sem þykir einkennandi fyrir Bandaríkjamenn, það er fordæmt. Kókakóla, sem fyrir flestum er bragðgóður gosdrykkur, vilja þessháttar menn ekki sjá. Hamborgarar, sérstaklega þeir sem koma frá höfuðóvininum MacDonalds, skulu aldrei inn fyrir þeirra varir. Kvikmyndir sem verða vinsælar í Bandaríkjunum, þær eru innihaldslausar. Bandarískir sjónvarpsþættir eru allir ómögulegir. Bandaríkjamenn eru fáfróðir byssumenn sem ekkert vita um evrópsk menningarlíf. Bandarískir stjórnmálamenn eru „ágengir“ og ef ekki það þá eru þeir „einangrunarsinnar“ sem er enn verra. Og við þetta er svo bætt að Bandaríkin eigi blóðuga sögu villimennsku og yfirgangs eins og margítrekuð dæmi sýni.
Þó að Bandaríkjamenn hafi unnið heimsbyggðinni meira gagn en nokkur önnur þjóð þá er auðvitað ekki eins og öll þeirra saga sé fullkomin. Að vestur í Bandaríkjunum búi þrjúhundruð milljónir ofurmenna og engla sem aldrei hafi tekið ranga afstöðu til nokkurs hlutar, aldrei gengið óþarflega langt í nokkru máli og aldrei gert neitt sem ekki megi gagnrýna. Vitaskuld má finna eitt og annað í sögu þessa volduga ríkis sem betur hefði verið gert öðru vísi eða alls ekki. En slík atriði – sem óþarfi er að afneita – eru slíkt hjóm við hliðina á þeirri skipulögðu illmennsku sem fylkt hefur útbreiðslu sósíalismans undanfarin hundrað ár, að það er með engu móti sambærilegt. En einhverra hluta vegna stunda sumir það að rægja Bandaríkjamenn dag og nótt en virðast ekki hafa heyrt af ógnarríkjum mannvonskunnar sem sósíalistar stóðu fyrir í Austur-Evrópu meginhluta síðustu aldar. Eða kannast einhver við að hafa lesið að þennan dag árið þetta hafi þúsund saklausir borgarar látið lífið í gúlagi? Og að það hafi aðeins verið venjulegur dagur í gúlaginu?
Og vinstri mennirnir á Vesturlöndum, þeir eru meira að segja oft taldir markverðar persónur og þykja sjálfsagðir álitsgjafar í blöðum og umræðuþáttum. Erlendis þykir vinstri intellígensíunni jafnvel stundum sem þetta séu afskaplega „vel gefnir“ menn. Að vísu koma gáfurnar sjaldnast fram í öðru en einstökum hæfileikum til að draga rangar ályktanir af atburðum sögunnar en það er alveg sama. Jú og svo sýna þeir óvenjulega elju við að níða þá niður sem áratugum saman stóðu vörð um frelsið, gegn sósíalismanum. En sú varðstaða verður víst seint fyrirgefin.