Svonefnt „Stúdentaráð“ Háskóla Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem hækkun innritunargjalda við Háskóla Íslands er mótmælt. Nú vill svo til að þetta sama Stúdentaráð fær hluta af innritunargjöldunum en ráðið er að sjálfsögðu ekki að mótmæla þeim hluta, nei bara hinum. Líklega má halda því fram án sérstaks rökstuðnings að flestir sem skrá sig í Háskóla Íslands séu á leiðinni í skólann sjálfan – en ekki í eitthvað furðufélag á borð við Stúdentaráð.
Í ályktun furðufélagsins segir: „Stúdentaráð mun berjast af krafti gegn fyrirhuguðum hækkunum enda brjóta þær gegn öllum grundvallarhugmyndum um jafnrétti til náms og fela í sér fráhvarf frá stöðu Háskóla Íslands sem þjóðskóla sem standi öllum opinn.“ Stúdentaráð virðist með öðrum orðum halda að innritunargjöld sem fara í rekstur skólans – sem nemendur eru að sækjast eftir – „brjóti gegn öllum grunvallarhugmyndum um jafnrétti til náms“. Gott og vel, gerum ráð fyrir að svo sé. Hvað má þá segja um að greiðsla félagsgjalda í furðufélag sé gerð að forsendu fyrir því að menn geti stundað nám við Háskóla Íslands?
Stúdentaráð mun ætla að safna undirskriftum hjá stúdentum fyrir því að afgreiðslufólk í bakaríum, fiskverkafólk og aðrir skattgreiðendur greiði innritunargjöldin fyrir stúdenta. Að mati Stúdentaráðs er það jafnrétti til náms að allir skattgreiðendur greiði fyrir námið en aðeins félagsmenn í Stúdentaráði megi nýta sér það. Reyndar heldur ráðið því einnig fram að það sé ólöglegt að innheimta skólagjöld. Ef það er rétt ættu skattgreiðendur ef til vill að sækja það fyrir dómstólum að fá skólagjöldin endurgreidd þ.e. þann hluta skatta sinna sem rennur í Háskóla Íslands. Óvíst er um viðbrögð menntamálaráðherra við þessari undirskriftasöfnun en hann hefur hins vegar lagt á sig krók til að tryggja að enginn stundi nám við Háskóla Íslands án þess að greiða Stúdentaráði félagsgjöld svo það er engu að treysta í þessum efnum.