Föstudagur 5. maí 2000

126. tbl. 4. árg.

Meðal þess sem löngum hefur þótt til marks um hvort menn séu til vinstri eða hægri í stjórnmálum, er það hversu gjarnir þeir eru á að segja fólki fyrir verkum. Vinstri menn hafa oft haft ríka tilhneigingu til að gerast forráðamenn annarra en hægri mönnum er tamara að treysta hverjum og einum fyrir því sem hann varðar mestu. Sé litið á mál með þessum hætti er vandalítið að gera sér grein fyrir hvorir aðilarnir mega betur una við ýmis atriði þess frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem nú er mjög reynt að koma í gegnum Alþingi.

Meðal þess sérkennilegasta – og er þó af mörgu að taka – við frumvarpið, er sú ofuráhersla sem höfundur þess leggur á, að foreldrar megi ekki ráða því sjálfir hvernig þeim hentar best að skipta væntanlegu orlofi á milli sín. Sá fámenni en skipulagði hópur sem berst fyrir frumvarpinu má alls ekki heyra það nefnt að einstakar fjölskyldur megi ráða slíku grundvallaratriði sínu sjálfar.

Undir forystu Geirs H. Haardes er nú allt gert til að lögin um fæðingarorlof verði eftir ýtrustu óskum þessa fámenna hóps. Hvað sem það kostar, skal ríkið ákveða hvaða skipting fæðingarorlofs skal henta öllum best. Og þetta er svo áríðandi að þetta fólk vill frekar að fæðingarorlofsréttur fjölskyldunnar skerðist um þrjá mánuði en að hún fái að ráða þessu. Áhugi þessa fólks er ekki á hagsmunum barnsins – þessu fólki gæti líklega ekki verið meira sama – því ekkert annað má komast að en að vinna sigur í trúarbragðastríði þessa fámenna hóps. Flestum má því vera ljóst að ákvæði það sem njörva skal tiltekna skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra, hvernig sem á stendur, á ekkert skylt við venjulega hægri stefnu. Enda hafnaði landsfundur Sjálfstæðisflokksins þessu ákvæði með ótvíræðum hætti á síðasta ári. En Geir H. Haarde og skjólstæðingum hans er bara alveg sama.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ungur hægrimaður grein í tímarit ungra sjálfstæðismanna og velti fyrir sér hvort máli skipti hverjir fara með völd í landinu hverju sinni. Ungi hægri maðurinn taldi svo vera og rakti ýmis dæmi máli sínu til stuðnings. Greininni lauk hann svo á þessum orðum:

„Það hugarfar vinstri manna, sem hér kemur fram, beinist ekki síst að því að hafa vit fyrir fullorðnu fólki í smáu sem stóru. Það skiptir ekki aðeins máli, heldur getur það skipt sköpum hvort menn með þetta hugarfar eru við völd eða ekki. Þau fáu dæmi sem hér hafa verið rakin sýna glöggt nauðsyn þess að pólitísk áhrif slíkra manna séu sem minnst.“

Þessi réttmætu orð birtust í Stefni, 1. tölublaði, 35. árgangs. Höfundur var formaður SUS og heitir Geir H. Haarde.