Fimmtudagur 12. október 2000

286. tbl. 4. árg.

Þingmenn sinna mörgum brýnum málum. Sumir þingmenn sinna svo enn brýnni málum en aðrir. Þannig hafa tveir af þingmönnum þjóðarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Svanfríður Jónasdóttir, lagt fram brennandi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra.

Þær vilja fá að vita – og skyldi nú engan undra – hvort ráðherrann hafi látið „kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir“. Þá spyrja þær hverjar niðurstöður könnunarinnar séu, og ef þær liggja ekki fyrir, á hvaða stigi þessi merka könnun sé nú. Vonandi berst svar sem fyrst því málið þolir ekki mikla bið. Undanfarin ár hefur karlmennskuímynd orðið til þess að karlmenn hafa valdið slysum, sjálfsvígum og ekki síst eitrunum um land allt og á þessu máli verður að taka sem allra fyrst. Að því búnu má kanna þátt kvenlegs innsæis í þeirri hegðun kvenna sem orsakar skynsamlegan málflutning á Alþingi.

En það er víðar vandi að vera af öðru kyninu en hér á landi og það er víðar velviljað fólk á kaupi hjá almenningi sem tekur á slíkum málum. Í Bretlandi mátti leikkonan góðkunna Cameron Diaz sætta sig við að auglýsingar tímaritisins Hotdog, sem sýndu hana hafa hönd í buxnastreng, voru afturkallaðar eftir að þrír góðborgarar höfðu klagað í þar til gerða eftirlitsnefnd með auglýsingum. Myndin hafði áður birst á forsíðu tímaritsins en var nú notuð í auglýsingum þess í öðrum blöðum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingin væri „líkleg til að valda alvarlegri og víðtækri hneisu“.