Mánudagur 17. apríl 2000

108. tbl. 4. árg.

"Mesti vindhani íslenskra stjórnmála."
„Mesti vindhani íslenskra stjórnmála.“

Á dögunum var haldinn stjórnmálafundur á Akureyri þar sem Össur Skarphéðinsson viðraði skoðanir sínar um hin ýmsu mál, þar á meðal fiskveiðistjórnarkerfið. Morgunblaðið hafði m.a. þetta eftir Össuri: „Hann sagði núverandi kerfi brjóta í bága við jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar. … Össur kvað brýnt að finna kerfi sem stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar …“ Þetta hefur verið sá söngur sem Össur og aðrir vinstri menn hafa sungið undanfarin misseri og varla farið fram hjá nokkrum manni að áherslan í baráttunni gegn kvótakerfinu hefur verið einmitt þessi. Tveimur dögum eftir þennan fund féll dómur í Vatneyrarmálinu í Hæstarétti og var Össur beðinn um að tjá sig um hann. Þá hafði hann skyndilega gleymt fyrri málflutningi og hafði þetta um málið að segja í viðtali á Rás 2: „Ég er náttúrulega svolítið óánægður með þessa niðurstöðu og ég er þeirrar skoðunar að þessir fjórir dómarar að þeir hafi nú túlkað stjórnarskrána dálítið öðruvísi heldur en ég tel heppilegt og rétt en það breytir ekki hinu að ég og mitt fólk við höfum ekki verið að slást gegn þessum lögum vegna þess að þau brjóti jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar.“ Svona er hlaupið úr einu víginu í annað og eitt sagt einn daginn og annað tveimur dögum síðar. Þetta kemur svo sem ekki á óvart þegar Össur er annars vegar, en hann er reyndar ekki einn um að kannast ekki við nokkurra daga ummæli sjálfs sín.

Í borgarstjórnarkosningunum 1986 var ungur og snjall maður í framboði fyrir Alþýðubandalagið. Á stjórnmálafundi í Háskólabíói fimm dögum fyrir kosningarnar greindi hann frá forgangsverkefni væntanlegs vinstri meirihluta: „Og svo ætlum við að byrja á því, sem við gerðum ekki illu heilli síðast, þegar við náðum borgarstjórnarmeirihluta, og það er að fæla alla embættismenn borgarkerfisins úr starfi. Mér er alveg sama, hvert við sendum þá, í öskuna eða látum þá sópa götur eða bara rekum þá. Þeir unnu skemmdarverk á síðasta kjörtímabili vinstri meirihlutans, og burt skulu þeir.“

Þetta þótti ýmsum ófögur fyrirheit og einnig óþægilega greinargóður vitnisburður um hversu mjög ýmsir háskólagengnir vinstri menn líta niður á störf verkamanna. Fjórum dögum eftir fundinn þar sem frambjóðandinn hafði með þessum hætti farið á kostum voru ummæli hans borin undir hann í sjónvarpsþætti. En þá bar svo við að hann kannaðist bara ekkert við þau: „Nei, ég sagði þetta alls ekki. Ég sagði, ef í nauðir ræki í ýtrustu neyð, þá myndum við gera það.“

Það merkilega er, að þessi ungi ferski frambjóðandi sem árið 1986 kynnti sig sem mann nýrra tíma, hann heitir líka Össur Skarphéðinsson.