E itt sinn bar svo við, að stúlka kærði mann einn fyrir ósæmilega hegðun við sig. Sá kom alveg af fjöllum, sagðist aðeins hafa strokið stúlkunni vingjarnlega um annað hnéð, svo sem í viðurkenningarskyni, en bætti svo við að það væri auðvitað álitamál hversu langt upp eftir lærinu hnéð næði.
Um áramót gera flestir sér glaðan dag. Þáttur í því hjá mörgum er að sjá lífið og tilveruna í spéspegli og ganga fram í sem mestu alvöruleysi. Þeir tveir fjölmiðlar sem hinn almenni Íslendingur hefur í mestum hávegum, Ríkissjónvarpið og Vefþjóðviljinn, bregða til dæmis út frá hefðbundinni dagskrá; Ríkissjónvarpið með skaupi og Vefþjóðviljinn með áramótaútgáfu sem hann vildi síður þurfa að endurtaka eiðsvarinn aðra daga ársins. Flestir þeir sem skemmta sér um áramót hafa hingað til verið þeirrar skoðunar að gleðin standi frá síðari hluta gamlársdags og eitthvað framundir nýjársdagsmorgun eftir þreki hvers og eins, og hafa einstakar túlkanir á því ekki valdið verulegum vandræðum fram að þessu. En nú virðist sem komið sé upp það sjónarmið að það sé töluvert álitamál hversu langt frameftir vetrinum áramótin nái.
Frá því var greint í fjölmiðlum um helgina, að nokkrir frammámanna vinstrigrænna, þar á meðal varaformaður og þingmannsefni flokksins, hefðu um áramótin sent frá sér tilkynningu um það hvernig árið 2006 hefði komið þeim fyrir sjónir. Þar á meðal hefði verið greint frá því, að í augum hópsins hefði „bók ársins“ verið áður óþekkt rit, „Minnislausa stelpan frá Stokkseyri“, þar sem „Margrét Frímannsdóttir heimfærir sögu Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig“. Samkvæmt fréttum mun ýmsum hafa þótt í fyllsta máta ósmekklegt að nota sorgarsögu Thelmu sem skotfæri af þessu tagi, þó auðvitað verði að horfa á málið í ljósi þeirrar venju að um áramót leyfist margt sem annars er bannað.
Það sem var hins vegar merkilegast við fréttina af málinu, var svar hinna vinstrigrænu húmorista. Það var eiginlega svar sem bendir til þess að í þeirra huga standi áramótin frameftir janúar og enn megi tala út í hött. Svarið var einfaldlega það, að klausan: „Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig“, hefði að sjálfsögðu ekki verið um Margréti Frímannsdóttur heldur einfaldlega snjallt skot á… Jón Baldvin Hannibalsson!
Beint í mark! Jón Baldvin situr eftir með kókosbolluna í andlitinu eftir þetta úthugsaða vinstrigræna grín, þar sem hann var að vísu hvergi nefndur. En þessi merkilega skýring kallar því miður á aðra spurningu. Úr því að málinu var ekki einfaldlega svarað á þann veg að áramótatal sé bara út í loftið, heldur farið að gefa einhverja furðuskýringu eins og að málið hafi snúist um Jón Baldvin Hannibalsson, hleraðan og hressan, þá sitja menn uppi með það að verða spurðir hvort það hafi sem sagt verið í lagi að nota sögu Thelmu í pólitísku skyni, ef það var gert til að hæða Jón Baldvin, en ekki ef það var gert til að gera lítið úr Margréti Frímannsdóttur. Hvaða máli skiptir það hvort menn áttu við Margréti, sem var nafngreind og kölluð minnislaus, eða Jón Baldvin sem ekki var nafngreindur en er vafalaust aðeins byrjaður að gleyma?