Leikfélag Íslands nefnist leikfélag sem hefur starfað í Reykjavík undanfarin ár og efnt til margra vinsælla leiksýninga. En þrátt fyrir að sýningar félagsins hafi notið talsverðra vinsælda þá er nú svo komið að leikhússtjórinn segir að án styrkja frá ríki eða Reykjavíkurborg sé saga þess öll. Hafa forsvarsmenn leikfélagsins því rætt við borgaryfirvöld og menntamálaráðuneyti og reynt að afla opinberra styrkja til starfsemi sinnar.
Leikfélag Íslands hefur hingað til lagt áherslu á að það sé rekið án opinberra styrkja en treysti þess í stað á sölu aðgöngumiða og styrki frá fyrirtækjum. Að vísu mun leikfélagið hafa fengið afnot af Iðnó sér að kostnaðarlausu og er ekki lítill styrkur í því fólginn en það mun hins vegar vera rétt að félagið hafi ekki notið beinna framlaga frá hinu opinbera til rekstrarins, öfugt við til dæmis Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur. En það er einmitt vegna opinberra styrkja til þessara félaga sem forsvarsmenn Leikfélags Íslands segja að leikurinn sé ójafn; að vegna þessara styrkja geti Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur haldið miðaverði niðri og þannig gert einkareknum leikhúsum nær ókleift að starfa.
Ef Leikfélag Íslands fær opinbera styrki með sama hætti og hin félögin, þá á þessi leikur að verða jafnari. Þá geti allir keppt á jafnréttisgrundvelli. Og kannski verður sú raunin, þótt spyrja megi hvað gera eigi við önnur leikfélög eða þá sem hyggja á rekstur nýrra leikfélaga. Ekki verður þeirra staða betri við að styrkþegum sé fjölgað um einn. Að vísu hafa borgaryfirvöld lýst því yfir að þau muni ekki leggja fé til rekstrar Leikfélagsins en Leikfélagsmenn segjast hins vegar eiga í viðræðum við menntamálaráðherra og væri alveg eftir öðru ef ráðherrann gerði samning við félagið um að það tæki að sér að setja upp ákveðinn fjölda sýninga gegn því að fá árlega greiðslu úr ríkissjóði. Slíkir samningar Björns Bjarnasonar við þrýstihópa eru nefnilega að verða alvarlegt vandamál. Hann hefur þannig samið við til dæmis kvikmyndagerðarmenn og forsvarsmenn Íslensku óperunnar og reynast slíkir samningar skattgreiðendum dýrt spaug.
Það er alveg rétt að opinberir styrkir til ákveðinna leikfélaga, til dæmis Þjóðleikhússins og Leikfélags Reykjavíkur, gera öðrum erfitt um vik. En svarið við því er að draga úr þessum styrkjum. Ekki að fjölga styrkjum til annarra. Opinber styrkur til leikfélags er tekinn með sköttum af almennum borgara. Ríki eða sveitarfélag ákveður að skerða ráðstöfunarfé hins almenna manns með því að taka af honum hluta af fé hans og færa það til manna sem setja upp leiksýningar, alveg óháð því hvort borgarinn hefur nokkurn minnsta áhuga á þessum sýningum. Borgarinn, sem þannig er neyddur til að styrkja sýningar úti í bæ, hefur svo minna fé handa á milli til að kaupa það sem hann sjálfur telur sig þurfa eða langa í.
Svo er annað sem ekki er síður hvimleitt við þessi mál. Það eru allir boðsmiðarnir. Vita menn hversu margir sjá til dæmis sýningar Þjóðleikhússins án þess að vera krafðir um aðgangseyri? Menningarliðið, sem telur sjálfsagt að allur almenningur sé skattlagður til þess að það fái að stunda sín áhugamál, auðvitað mætir það flest í leikhúsin glaðbeitt, prúðbúið – og með boðsmiða í hönd.