Vefþjóðviljinn 181. tbl. 18. árg.
Í gær fjallaði Vefþjóðviljinn um oftrú margra á þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að útkljá langvinn deilumál. En það eru ekki aðeins þjóðaratkvæðagreiðslur sem margir eru byrjaðir að ofmeta, og þá líklega eftir að svo vel vildi til að tvær slíkar forðuðu Íslendingum undan Icesave-ánauðinni.
Annað hugtak, lýðræði, virðist líka ofmetið eða hugsað með og víðtækum hætti.
Þetta má alls ekki skilja sem svo að Vefþjóðviljinn sé á móti lýðræði. Það er mjög mikilvægt að stjórnmálamenn hafi lýðræðislegt umboð til starfa og að opinberar ákvarðanir og stefnumótun sé sem oftast í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa. Það sem hins vegar má kalla ofmat lýðræðisins, er skyndileg útþensla þeirra málefna sem opinbera valdið sölsar undir sig.
Fleiri og fleiri virðast telja eðlilegt að beita valdi lýðræðisins til þess að sölsa vald og verðmæti undir hið opinbera. Færri og færri stjórnmálamenn virðast þora að mæta slíkum tillögum með svarinu: Þetta kemur ríkinu bara ekki við.
Þessi þróun er orðin ótrúlega hröð. Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn bæta við nýjum og nýjum reglum, sem hægrisinnaðir stjórnmálamenn virðast svo ekki þora að afnema, af því að það yrði umdeilt.
Þarna má til dæmis taka lög, sem sett voru í valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur, um kynjahlutföll i stjórnum fyrirtækja. Auðvitað ætti að blasa við að það sé einkamál eigenda fyrirtækja hverja þeir skipa í stjórn eigin fyrirtækis. Auðvitað átti að svara tillögum um lögskipaðan kynjakvóta með því að benda á að þetta kemur ríkinu bara ekkert við. Stjórnarmenn eru fulltrúar hluthafa en ekki þingmanna. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í ríkisstjórn en það breytir engu. Nýr ráðherra málaflokksins gerir ekkert til þess að afnema lögin. Hún hélt fund með nokkrum „aðilum úr atvinnulífinu“ og á fundinum reyndist ekki samstaða um að stefna að afnámi laganna, svo ráðherrann ákvað að gera ekki neitt.
Þetta er dæmigert mál þar sem stjórnlyndir stjórnmálamenn þvinga eigin gildismati upp á annað fólk. Það er dæmi um ofmat lýðræðisins þegar fólk hættir að skilja hversu óeðlileg slík lagasetning er. Skyndilega eru stjórnmálamenn, sem hafa sjálfir einhverjar hugmyndir um að betra væri ef stjórnir fyrirtækja væru svona en ekki svona, farnir að trúa því að þeir megi knýja þessar hugmyndir fram, bara af því að þeir hafa þingmeirihluta. Fólk er byrjað að gleyma því, að í slíkum málum á ekki að skipta neinu máli hvað stjórnmálamönnum finnst. Og ekki heldur hvað meirihluta landsmanna finnst, jafnvel þótt vitað væri hvað honum finnst.
Eitt mikilvægasta verkefni frjálslynds fólks á næstu árum er að berjast gegn samfelldri aukningu slíkra laga og reglna. Laga og reglna sem snúast um það að þrýsta lífssýn stjórnlyndra stjórnmálamanna upp á venjulegt fólk.