Vefþjóðviljinn 180. tbl. 18. árg.
Þjóðin. Lýðræði.
Bæði þessi hugtök eru mikið notuð í stjórnmálaumræðunni. Þau eru nokkurs konar tromp, sem enginn getur andmælt. Hver styður ekki lýðræði? „Treystiði ekki þjóðinni?“ er oft spurt, þegar menn vilja taka ráðin af kjörnum fulltrúum.
Oft er gerð krafa um að eitthvert mál verði lagt „í dóm þjóðarinnar“. Á bak við kröfuna virðist stundum vera sú hugmynd að til sé einn óbreytanlegur aðili, Þjóðin, sem hafi einn ákveðinn vilja, sem einfaldlega sé hægt að fá fram. En auðvitað er það ekki þannig. Ef efnt er til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ fæst ekki vilji íslensku þjóðarinnar, heldur niðurstaða um það, hvað þeir sem mættu á kjörstað á tilteknum degi vildu á nákvæmlega þeim degi.
Þetta hljómar kannski eins og útúrsnúningur eða langt mál um smáatriði, en er það ekki.
Taka má dæmi af sígildu deilumáli, baráttunni um það hvort Ísland gengur í Evrópusambandið eða ekki. Sumir segja að ekki fáist „niðurstaða í málið“ fyrr en „þjóðin hefur fengið að segja sitt álit“.
Ef marka má kannanir mörg undanfarin ár má segja að nær alltaf sé mikill meirihluti landsmanna andvígur inngöngu í Evrópusambandið. En einstaka sinnum gerist það hins vegar að könnun gefur öfuga niðurstöðu til kynna. Fyrst eftir bankahrunið, þegar margir höfðu orðið fyrir fjármálaáfalli og fjölmiðlar höfðu vikum saman hampað öllum þeim sem töluðu með neikvæðum hætti um Ísland, íslenskt viðskiptalíf, íslenska stjórnsýslu, íslenska stjórnmálamenn, íslenska viðskiptamenn, íslenska embættismenn og svo framvegis, sýndu kannanir til dæmis að meirihluti landsmanna vildi ganga í Evrópusambandið.
Hvað hefði gerst ef Ísland hefði þá verið orðið umsóknarríki í Evrópusambandið? Ef einhvern tíma, tíu eða fimmtán árum áður, hefði verið samþykkt á þingi að óska eftir inngöngu og síðan hefði aðlögun verið markvisst stunduð í raun, en engin ríkisstjórn haft í sér dugnað til að afturkalla beiðnina? Jú, þá hefði Evrópusambandssinnuð ríkisstjórn auðvitað notað tækifærið árið 2009 og skrifað í flýti undir „samning“ sem borinn hefði verið undir atkvæði áður en fólk hefði náð áttum. Álitsgjafar, „aðilar vinnumarkaðarins“, háskólamennirnir, Ríkisútvarpið og sérfræðingarnir hefðu rekið ákafan áróður og Evrópusambandið dreift samfelldu „fræðsluefni“. Fríblöð í öll hús sungið með. Við þessar aðstæður hefðu menn gengið að kjörborðinu.
Auðvitað blasir við að hernaðaráætlun Evrópusambandssinna er í raun á þessa leið. Halda markvisst áfram öllum undirbúningi. Þeir vita að flestir núverandi ráðherra eru í raun ópólitískir og munu ekkert gera til að vinda ofan af þeirri aðlögun sem farið hefur fram á undanförnum árum. Sumir ráðherranna trúa því meira að segja að engin aðlögun hafi yfirleitt farið fram. Ef einhvern tíma myndast svo lag, einhverjir atburðir verða til þess að nógu margir skipta tímabundið um skoðun eða verða óvissir í sinni sök, þá verður kné látið fylgja kviði. „Samningur“ verður gerður í skyndi og Ríkisútvarpið mun strax finna marga viðmælendur sem segja að „samningurinn“ sé miklu betri en þeir þorðu að vona. Efnt verður til stuttrar en öflugrar áróðursherferðar og svo reynt að nýta „gluggann“ til að koma Íslandi undir Brussel, þar sem það mun síðan sitja fast.
Þess vegna leggja Evrópusambandssinnar nú allt upp úr því að inngöngubeiðnin þeirra fái að standa. Að Ísland verði áfram umsóknarríki, svo einhvern tíma verði hægt að grípa færið ef glufa opnast.
Ef sagt er með nokkurri einföldun að á hverjum tíu árum sé staðan sú að í níu og hálft ár vilji mikill meirihluti manna ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið, en í sex mánuði á hverjum tíu árum verði nægilega margir tímabundið óvissir í sinni sök til að Evrópusambandssinnar séu í meirihluta á meðan. Og hvað ef einmitt á því sex mánaða tímabili er efnt til atkvæðagreiðslu? Hefur þá málinu „lokið“ við það að „þjóðin fékk loksins að segja álit sitt“?
Hvað ef Bandaríkjasinnuð ríkisstjórn hefði komið því í gegnum þingið fyrir löngu að Ísland sækti um að verða 51. ríki Bandaríkjanna? Auðvitað hefði sú ríkisstjórn ekki lokið málinu endanlega, því hún vissi að slík tillaga yrði við allar venjulegar aðstæður kolfelld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar hefðu stjórnvöld unnið jafnt og þétt að því að laga íslensk lög að bandarískum lögum, en á sama tíma neitað staðfastlega að nokkur aðlögun færi fram. Næstu ríkisstjórnir, sem ekki væru Bandaríkjasinnaðar, myndu hins vegar ekki koma sér til að afturkalla umsóknina en þess í stað láta undan sakleysislegri kröfu aðildarsinna um að umsóknin yrði einfaldlega „sett á ís“. En svo myndi eitthvað gerast sem breytti skoðunum nægilega margra um stutta stund. Árás á tvíburaturnana hugsanlega. Frekar þó að glæsilegur og mælskur maður úr minnihlutahópi yrði forseti Bandaríkjanna og hrifi Evrópubúa með fögrum ræðum. Eitthvað sem gerir það að verkum að skoðanakannanir breytast í stuttan tíma. Ætli þá yrði rykið í ofboði dustað af umsókninni, „samningur“ gerður í flýti, áróðursherferð sett í gang, hinn glæsilegi forseti kæmi hingað og héldi fjöldafund, og svo yrði kosið? Málinu yrði „loksins lokið“ með því að „þjóðin“ fengi að „kveða upp sinn dóm“?
Finnst einhverjum eðlilegt, að meirihluti kjósenda geti hvenær sem er lokað landið varanlega inni í erlendu ríki eða ríkjasambandi, bara ef kosningin fer fram á einhverju taktískt völdu andartaki? Nei auðvitað er það ekki eðlilegt. Og það er vegna þess að „þjóðin“ hefur ekki einhvern einn vilja sem hægt er að fá fram með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla mælir ekki annað en hvað þeir, sem mættu á kjörstað á tilteknum degi, vildu á einmitt þeim degi.
Það er ekki út í loftið sem Evrópusambandssinnar vilja fyrir alla muni að Ísland verði áfram umsóknarríki. Þeir vita að svo lengi sem inngöngubeiðnin er ekki afturkölluð, þá er alltaf sá möguleiki að þeir geti síðar efnt til atkvæðagreiðslu, einhvern tíma þegar mótstöðuafl landsmanna er veikt. Og landið, þar sem meirihluti landsmanna vill í níu og hálft ár af hverjum tíu að land þeirra sé utan Evrópusambandsins, verður þá fast undir Brussel um alla framtíð.