Fimmtudagur 9. maí 2013

Vefþjóðviljinn 129. tbl. 17. árg.

Sumir vísindamenn telja sólina hafa meiri áhrif á hitastig andrúmslofts jarðar en styrkur koldíoxíðs.
Sumir vísindamenn telja sólina hafa meiri áhrif á hitastig andrúmslofts jarðar en styrkur koldíoxíðs.

Stöku sinnum birtast í svonefndum stórblöðum skrif þar sem því er andmælt að aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu muni leiða hörmungar yfir mannkyn.

Ein slík var í The Wall Street Journal í gær. Þar skrifa Harrison H. Schmitt aðstoðarprófessor í verkfræði við University if Wisconsin og William Happer prófessor í eðlisfræði við Princeton um hina úthrópuðu lofttegund koldíoxíð, CO2.

Þeir félagar segja að öfugt við það sem haldið er fram muni aukinn styrkur koltvíoxíðs gagnast hinu fjölgandi mannkyni með því að auka uppskeru í landbúnaði. Mælingar undanfarinn áratug hafi sýnt að spálíkön NASA og annarra hafi ýkt áhrifin sem mannkyn hafi á andrúmsloftið. Líkt og ýmsir vísindamenn hafi bent á virðist hitastig andrúmsloftsins fremur sveiflast með virkni sólar en styrk gróðurhúsalofttegunda.

Grein sinni ljúka þeir á þessum orðum:

Koldíoxíð hefur áður verið í miklu hærri styrk í andrúmslofti jarðar en nú. Rannsóknir sýna að líf blómstraði á landi og í höfunum á þeim tíma. Hinn yfirgengilegi listi yfir þær hörmungar sem bíða mannsins vegna aukins styrks koldíoxíðs eru trúarbrögð í gervi vísinda.