Vefþjóðviljinn 300. tbl. 19. árg.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi var til umræðu tillaga frá einni af málefnanefndum flokksins eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði alfarið þvingunum á borð við kynjakvóta.
Meðal þeirra sem mæltu gegn tillögunni og með kynjakvótum voru tveir þingmenn flokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir og Illugi Gunnarsson. Í máli þeirra kom fram að svo lengi hefði verið kynjahalli á ýmsum stöðum – og hafa þá einkum haft kolanámur, leigubíla og dyragættir í huga – að ekki mætti útiloka notkun kynjakvóta og annarrar valdbeitingar ríkisvaldsins.
Árið 2007 var Illugi í þriðja sæti framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður á eftir tveimur kynbræðrum sínum. Þrír karlar voru sömuleiðis í efstu sætum flokksins í kjördæminu við þingkosningar 2009, Illugi þeirra á meðal. Í efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir þingkosningar 2013 voru þrír karlar og Illugi að sjálfsögðu mættur fremstur meðal jafningja.
Í efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir síðustu kosningar voru Ragnheiður Elín Árnadóttir og… Unnur Brá Konráðsdóttir.
Hvorki Unnur Brá né Illugi buðust til að standa upp fyrir hinu kyninu þótt um augljósan „kynjahalla“ væri að ræða í efstu sætum framboðslistanna í þessi fjögur skipti. Illugi á raunar einstæða sögu í þessum efnum. Hann er eini frambjóðandinn á Íslandi á þessari öld sem hefur í þrígang haft það í hendi sér að jafna „kynjamisréttið“ á framboðslista en látið það ógert. Misrétti sem hann telur svo geigvænlegt að beita megi ríkisvaldinu til að leiðrétta.
Fyrsta boðorð forsjárhyggjuliðsins er því sem fyrr: Ekki gera eins og ég geri, heldur eins og ég segi.