Kjartan Magnússon ritar grein í DV í fyrradag þar sem bendir á að opinber afskipti geti virkað eins og frumskógur fyrir nýgræðinginn í atvinnulífinu. Gefum Kjartani orðið: „Of mikil umsvif hins opinbera draga úr svigrúmi einkafyrirtækja og einstaklinga. Sérstaklega bitnar þetta á nýjum fyrirtækjum. Ný fyrirtæki eiga bágt með að klofa yfir háa þröskulda, hvort sem þeir eru gerðir úr miklum sköttum, reglugerðafargani eða óréttlátri samkeppni frá opinberum fyrirtækjum. Nýgræðingurinn má ekki kafna í frumskógi opinberra afskipta. Borgarstjórn Reykjavíkur verður að sjálfsögðu að taka þátt í því að halda þessum frumskógi í skefjum. En þá þarf að snúa af braut R-listans sem hefur hækkað skatta og gjöld á einstaklinga og fyrirtæki. Í vaxandi alþjóðlegri samkeppni þurfa aðstæður fyrirtækja hér á landi að vera betri en fyrirtækja í öðrum löndum. Við verðum að bæta okkur upp flutningskostnað á hráefni hingað til lands og kostnað við að koma vörunni á markað. Vinnulöggjöf og kvaðir á atvinnulífinu hér verða að vera frjálslegri en í samkeppnislöndum okkar. Ef við stöndum þannig að málum er einnig von til þess að erlend fyrirtæki sjá sér hag í því að setjast hér að.“
Nokkrir þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa sett upp heimasíður. Við sögðum frá heimasíðu Kjartans Magnússonar í síðustu viku en Anna F. Gunnarsdóttir, Ágústa Johnson, Baltasar Kormákur, Eyþór Arnalds, Guðlaugur Þór Þórðarson, Inga Jóna Þórðardóttir og Kristján Guðmundsson státa einnig af slíkum síðum.