Helgarsprokið 2. febrúar 1997

33. tbl. 1. árg.

2. febrúar 1997: Í nýjasta hefti tímaritsins Reason
er viðtal við Ronald Coase, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1991. Í viðtalinu er hann beðinn að nefna dæmi um reglugerð sem hefði verið til góðs og aðra sem væri ekki jafn góð. Coase svarar svo: ,,Þetta er góð spurning. Þegar ég var ritstjóri The Journal of Law and Economics birtum við mikinn fjölda rannsókna á reglugerðum og áhrifum þeirra. Flestar ef ekki allar rannsóknirnar bentu til þess að reglugerðirnar hefðu slæmar afleiðingar; vöruverð hækkaði, vörugæði urðu lakari og neytandinn var fjær því að fá það sem hann sóttist eftir en ella. Ég hef samt sem áður ekki verið tilbúinn til að skrifa upp á að allar reglugerðir séu til bölvunar. Af hverju? Sennilegasta skýringin á því að allar rannsóknirnar bentu til þess sama er að ríkisvaldið hefur þanist svo gríðarlega út að það hefur náð því sem við köllum neikvæður jarðarábati. Í hvert sinn sem ríkið bætir einhverju við hlutverk sitt verður það hálfgert klúður. Ef við drægjum ríkisvaldið hins vegar saman gæti komið að því að það gerði eitthvað nýtt af viti. En þangað til við smækkum ríkisvaldið fáum við ekki að vita hvað það er.

2. febrúar 1997: Institute for Humane Studies við George Mason háskóla
í Virginíu í Bandaríkjunum hefur undanfarin ár boðið (frítt fæði, húsnæði og lesefni) ungu fólki á vikulöng sumarnámskeið þar sem farið er yfir hagfræðileg, sagnfræðileg, heimspekileg og siðferðileg rök fyrir frjálsu þjóðfélagi. Þó nokkrir Íslendingar hafa farið á þessi námskeið. Rétt er að minna á að umsóknarfrestur fyrir námskeiðin næsta sumar rennur út 31. mars en þeir sem skila umsóknum fyrir 1. mars þurfa ekki að greiða 15$ umsóknargjald. Kynntu þér málið á heimasíðu IHS en Andríki lumar einnig á kynningarbæklingum og umsóknareyðublöðum.