Ef tillaga þingmanna Samfylkingarinnar nær fram að ganga verður Fjörukránni bannað að auglýsa á þorranum. |
Sex þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til á Alþingi að hafinn verði undirbúningur að setningu „reglna um takmörkun auglýsinga á matvöru sem inniheldur mikla fitu, sykur eða salt“. Forsjárhyggjan virðist engin takmörk kunna sér og, eins og Vefþjóðviljinn hefur margoft haldið fram, þegar búið er að fá eitt bann fram, þá er hafin barátta fyrir hinu næsta. Síðast var bannað að nefna tóbakstegundir upphátt, nema í illu. Næst verður bannað að auglýsa smjör nema á nóttunni. Dettur einhverjum kannski í hug að svo verði látið staðar numið? Að það vanti bara bann við smjörauglýsingum og svo fái fólk að vera í friði? Vefþjóðviljinn hefur stundum sagt að skammt sé í að settar verði reglur um klæðaburð eftir veðri, að skylt sé að ganga með húfu og vettlinga í frosti. Það væri alls ekki vitlausara en að leyfa mönnum ekki að auglýsa salta poppkorn og kalda kók. Sennilega sýndi forræðishyggjuliðið hug sinn best þegar það bannaði neftóbak. Reyktóbaksbann gat það þó reynt að réttlæta með því að reykingamaðurinn sendi reyk á aðra – sem vitaskuld réttlætir þó ekki að ríkið setji reglur um reykingar í fasteignum sem eru í annarra eigu – en neftóbaksmaðurinn, hvern skaðaði hann?
Dálítið gaman að því að Samfylkingarþingmennirnir sem nú vilja reglur um takmörkun auglýsinga á feitum mat hafa nýlega lagt fram frumvarp um að lækka sérstaklega virðisaukaskatt á íslensku feitmeti, þar á meðal íslenskri tólg. Þeir voru líka allir hinir hörðustu á móti fjölmiðlafrumvarpinu síðastliðið vor, með þeim rökum ekki sístum að með því væri skert tjáningarfrelsi fólks og fyrirtækja. Nú á hins vegar að setja reglur um að takmarka – banna – tilteknar auglýsingar. Það er auðvitað ekki skerðing á neinum réttindum, eða hvað? Hvað segja prinsippmennirnir í Samfylkingunni um það?
Ekki svo að skilja að það sé ástæða til að muna afstöðu Samfylkingarinnar til fjölmiðlamálsins og reyna að draga ályktanir af henni til annarra mála. Sú afstaða var nú meira að segja á skjön við stefnu, orð og meira að segja tillögur Samfylkingarmanna í fjölmiðlamálum, og hvað þá öðrum málum. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem einmitt er fyrsti flutningsmaður tillögunnar um að hefja undirbúning á banni við matarauglýsingunum, hún flutti nú fyrir nokkru tillögu á alþingi um „mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun“. Í greinargerð Ástu Ragnheiðar sagði meðal annars:
Því er oft haldið fram að vald fjölmiðla hafi aukist í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að þeir eru mikilvægasti gluggi samfélagsins, bæði okkar eigin samfélags og annarra fjarlægari. Víst er að notendum fjölmiðla og tölvutækni fjölgar stöðugt, hvort heldur er til afþreyingar, fræðslu eða tjáskipta. Fjölmiðlaþróunin býður upp á gífurlega möguleika, en hún á sér einnig neikvæðar hliðar. Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum. Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði í samfélaginu. Því hlýtur að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðlar bjóði upp á fjölbreytt efni. Huga þarf að eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaðnum að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað. Jafnframt ber að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki sem augljóslega gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið. |
Ásta Ragnheiður greiddi svo að sjálfsögðu atkvæði gegn fjölmiðlafrumvarpinu eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar. Af prinsippástæðum auðvitað. Svo fór hún heim og samdi tillögu um bann við auglýsingum á smjöri. Fór svo til Össurar, Bryndísar Hlöðvers, Guðrúnar Ögmunds, Þórunnar Sveinbjarnar og Önnu Kristínar Gunnarsdóttur og þau skrifuðu öll undir með henni.
Hvernig ætli það verði, þegar að auglýsingabann Samfylkingarinnar hefur tekið gildi, ætli þá megi auglýsa þorrablót? Feitur matur og allir fullir. Og þegar búið verður að banna blótin, hvað ætli langt verði í að spurt verði hvort réttlætanlegt sé að fólk sé að borða þennan óþverra? Verður ekki kominn tími til að taka bara fyrir þessa vitleysu.
Gæti bætt heilsu fjölmargra.