Þ eim sem fylgjast með frönskum stjórnmálum finnst stundum sem þeir séu frekar að horfa á leikrit en alvöru stjórnmálaátök. Það sem gerir það að verkum að þau eiga þó tæplegast erindi á svið er sú staðreynd að þau eru flóknari en svo að nokkuð leikskáld gæti gert sér vonir um að áhorfendur gætu sett sig inn í svo flókin söguþráð, svo ekki sé talað um allan þann fjölda persóna og leikenda sem við sögu koma.
„Af þeim voru þrír Trotský-istar og má velta fyrir sér hvað það segir um stjórnmálaástandið í Frakklandi. Einn þeirra, Olivier Besancenot, ungur frambjóðandi og félagi í LCR sem er skammstöfun fyrir bandalag byltingarsinnaðra kommúnista. Samkvæmt sömu útgönguspá fær hann tæplega 5% atkvæða. Hinir Trotský-istarnir, Marxistarnir og fasistarnir fá eitthvað minna, nema Jean-Marie Le Pen sem fær rúm 11% samkvæmt spánni.“ |
Í dag voru forsetakosningar í Frakklandi. Samkvæmt útgönguspám má ætla að það verði þau Nicolas Sarkozy og Ségolène Royal sem munu berjast um embættið, en kjósa verður aftur þar sem enginn frambjóðenda fékk meirihluta atkvæða. Það voru reyndar margir um hituna því alls voru frambjóðendur 12. Af þeim voru þrír Trotský-istar og má velta fyrir sér hvað það segir um stjórnmálaástandið í Frakklandi. Einn þeirra, Olivier Besancenot, ungur frambjóðandi og félagi í LCR sem er skammstöfun fyrir bandalag byltingarsinnaðra kommúnista. Samkvæmt sömu útgönguspá fær hann tæplega 5% atkvæða. Hinir Trotský-istarnir, Marxistarnir og fasistarnir fá eitthvað minna, nema Jean-Marie Le Pen sem fær rúm 11% samkvæmt spánni.
Nú mætti segja margt um þau Sarkozy og Royal. Sarkozy telst til hægri í frönskum stjórnmálum, en Royal til vinstri. Ségolène Royal er frambjóðandi sósíalistaflokksins og ekki nóg með það, heldur er hún sambýliskona og barnsmóðir François Hollande, en sá er einmitt formaður þess sama flokks. Lengi vel var ekki ljóst hvort hann byði sig sjálfur fram sem forsetaefni flokksins, -gegn sambýliskonu sinni. Það segir kannski eitthvað um Frakka að fáum þótti nokkuð skrýtið við að slík staða gæti komið upp. Nicolas Sarkozy er formaður UMP, sem er einmitt flokkur núverandi forseta, Jacques Chirac. Sá lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum að hann styddi formann flokksins síns í þessum kosningum. Ef allt væri eðlilegt mætti ætla að slík yfirlýsing væri nánast formsatriði, -en ekki í Frakklandi. Allir vita að Sarkozy er ekki í uppáhaldi hjá Chirac, sem kom glöggt í ljós þegar Chirac valdi Dominique de Villepain sem forsætisráðherra og gekk þannig framhjá Sarkozy, sem klárlega hafði þó stuðning flokksins á bak við sig.
Eftirfarandi saga hefur gengið ljósum logum í kosningabaráttunni og lýsir ástandinu nokkuð: Í byrjun vikunnar kallaði Guð þá George Bush, Vladimir Putin og Jacques Chirac á sinn fund. Ástæða fundarins var að tilkynna þeim að hann hygðist eyða jörðinni fyrir helgina. Að þessum fundi loknum fór Bush til síns heima og ávarpaði þjóð sína með þessum orðum: Ég hef góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að Guð er til. Slæmu fréttirnar eru þær að hann ætlar að eyða jörðinni fyrir helgina. Vladimir Putin ávarpaði einnig þjóð sína og sagði: Ég hef tvær slæmar fréttir að færa. Sú fyrri er að Guð er til og sú seinni er að hann ætlar að eyða jörðinni fyrir helgi. Jacques Chirac fór einnig til síns heima og ávarpaði þjóð sína með þessum orðum: Ég hef tvær góðar fréttir að færa. Sú fyrri er að ég var einn evrópskra þjóðarleiðtoga boðaður á fund Guðs með Bush og Putin, en sú seinni er að Nicolas Sarkozy verður ekki kjörinn forseti Frakklands.
Það er ekki að ástæðulausu sem de Gaulle spurði: Hvernig er hægt að stjórna landi þar sem fást yfir 300 tegundir af ostum?