Eitt af skylduverkum mínum sem leigjandi var að annast um fjölskylduhundinn. Hann var nítján ára bhútanskur terríer sem Aris-hjónin höfðu eignast við upphaf hjúskapar síns, en Michael var lengi heimiliskennari konungsfjölskyldunnar í Bhútan. Hundurinn “Puppy” var mikið eftirlæti fjölskyldunnar og Michael var það kappsmál að hann yrði á lífi þegar kona hans slyppi úr prísundinni. Þau tvö ár sem við bjuggum í húsinu stóðu stígvél þeirra hjóna óhreyfð við útidyrnar – hennar gul, hans blá. Michael bað okkur um að leyfa þeim að vera þar sem táknrænni von um að einhvern tíma rynni upp sá dagur að heimilislífið færðist í eðlilegt horf á ný. |
– Jakob F. Ásgeirsson, Frá mínum bæjardyrum séð, blaðsíðu 102. |
E kki er víst að margir átti sig fyrirhafnarlaust á því hverjir þeir leigusalar eru, sem Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur vísar hér til. Dr. Michael Aris var sjálfsagt lítt kunnur hér á landi, þrátt fyrir að hafa vafalaust verið hinn nýtasti kennari konungsfjölskyldunnar í Bhútan, og ekki er þess að vænta að margir kannist við konu hans undir nafninu frú Aris, eða viti hvaða prísund hún sat í á þessum tíma og situr raunar enn. Frú Aris er hins vegar heimsþekkt undir nafninu Aung San Suu Kyi, og er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, og hefur verið í misjafnlega ströngu fangelsi herforingjastjórnarinnar þar í meira en áratug. Á bresku heimili þeirra hjóna bjó Jakob F. Ásgeirsson í tvö ár og þegar Micheal Aris lést árið 1999 minntist Jakob þessarar dvalar í einum af þeim reglulegu pistlum sem hann skrifaði þá í Morgunblaðið:
Við andlát Michaels rifjast upp margar minningar: glíman við að halda lífinu í “Puppy”, blindum og ellihrjáðum, fögnuðurinn þegar Suu hlaut Nóbels-verðlaunin, langar samræður um ástandið í Búrma en líka almennt um lífið og tilveruna, kvöldið sem Michael sýndi mér dúkana sem Suu hafði skrifað á örsmáu letri ýmsar ritgerðir sínar í bókinni Freedom from Fear og þjónustustúlkan smyglað úr húsi hennar með því að vefja þá um sig innanklæða, lýsing hans á fyrsta endurfundi þeirra eftir tveggja og hálfs árs aðskilnað, eða þegar ég fór á hans vegum til London að taka upp á segulband blaðamannafund sem nokkrir ráðherrar úr herforingjastjórninni héldu þar. Sterkasta minningin er þó fölskvalaus ást Michaels til konu sinnar og óbilandi tryggð hans við baráttu hennar í þágu þjóðar sinnar. Það er vissulega merkileg lífsreynsla að hafa fengið að komast í dálítið návígi við líf slíkrar afrekskonu eins og Aung San Suu Kyi. Meira virði er þó að hafa fengið að kynnast mikilhæfum og góðum dreng sem bar með reisn þungan kross sem örlögin lögðu honum á herðar. Hetjudáðir verða ekki settar á vogarskálar – en ef til vill var Michael Aris ekki minni hetja en hans víðfræga kona. |
Úrvali pistla Jakobs F. Ásgeirssonar hefur nú verið safnað á bók þar sem finna má umfjöllun um flest það sem deilt hefur verið um hér á landi undanfarin ár. |
Um sjö ára skeið skrifaði Jakob F. Ásgeirsson reglubundna pistla um þjóðmál í blöð. Fyrst í svonefndum viðhorfa-dálki Morgunblaðsins, dálki sem nú mun endanlega hafa verið lagður undir sama rétttrúnaðarsnakkið og blaðið lætur nú rigna uppstyttulítið yfir trúfasta lesendur sína, stundum að því er virðist í vísindalegri leit að endimörkum geðleysis þeirra. Eftir að Jakob lét af skrifum í Morgunblaðið tók hann að rita fasta þjóðmálapistla í Viðskiptablaðið og er óhætt að segja að þeir hafi vakið töluverða athygli. Nú hefur verið safnað á bók úrvali allra þessara pistla Jakobs, Frá mínum bæjardyrum séð, og kennir þar ýmissa grasa og margt hnýsilegt fyrir áhugamenn um þjóðmál og menningu.
Jakob kemur víða við í pistlum sínum og í atriðisorðaskrá bókarinnar má finna flest það sem deilt hefur verið um í íslenskum þjóðmálum undanfarin ár. Það er hins vegar sérstakt fagnaðarefni að Jakob horfir ekki á málin frá þeim sama sjónarhóli og fyrirferðarmestu hátalarar landsins. Síðustu misserin virðast ráðamenn fjölmiðla hreinlega hafa gætt þess að fastir pistlahöfundar og álitsgjafar séu sem einlitust hjörð, helst meinlokumenn. Slíkt efni er borið inn á heimili fólks, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og meðal annars þess vegna er fagnaðarefni að skynsemisrödd Jakobs F. Ásgeirssonar sé nú orðin aðgengileg í bókarformi. Það er hressandi að kynnast pistlahöfundum sem gera eitthvað annað en að kyrja með hinum þreytandi kór fullyrðingagjarnra beturvita, sem alltaf þykjast sjá í gegnum allt, en hafa aldrei beint sjónum sínum nema í eina átt. Ímynda sér þar drauga í hverju horni, en virðast aldrei taka eftir reimleikunum annars staðar.
Með þessu er ekki sagt að menn þurfi að vera sammála Jakobi F. Ásgeirssyni um alla hluti. Meginkostur bókar hans, fyrir utan það hversu læsileg hún er og aðgengileg, er að hér er loksins komin rödd sem mælir annað og óháð hinni ófrumlegu og langþreyttu síbylju, sem aldrei virðist mega fá frið fyrir. Þar að auki er bók Jakobs hin fróðlegasta; við lestur pistla Jakobs rifjast þannig upp fjölmörg mál sem fjölmiðlar og fullyrðingamenn þeirra vilja lítið gera með og helst gleyma með öllu. Ef þeir hafa þá yfirleitt frétt af þeim. Og Jakob fjallar einmitt talsvert um fjölmiðla og vinnubrögð þeirra, slagsíðu sumra þeirra og metnaðarleysi annarra. Hvort sem menn eru sammála Jakobi eða ekki um einstök mál, þá má ætla að flestir áhugamenn um þjóðmál geti fundið þar margt forvitnilegt. Hitt er þó rétt að taka fram, að bókin er líkleg til að höfða fremur til þeirra sem hafa fengið meira en nóg af einlitri hjörð íslenskra álitsgjafa, heldur en þeirra sem nú bíða með ofvæni eftir því að í ljós komi hvaða algerlega ófyrirsjáanlegu afstöðu fastir pennar vikunnar taki að þessu sinni.